Skaut úr skammbyssunni

Sextán ára piltur, sem var með hlaðna skammbyssu í fórum sínum, hleypti af einu skoti á leikvelli í Háaleitishverfi. Skaut hann á mannlaust hús, þar sem leikskólinn Jörvi er til húsa og fór kúlan í gegnum vegg þess. Fleiri skotum var ekki hleypt af en pilturinn beindi byssunni aldrei að öðrum, að sögn lögreglunnar.

Pilturinn var handtekinn í Breiðholti skömmu fyrir miðnætti á föstudagskvöld.  Hans hafði verið leitað frá því um kvöldmatarleytið sama dag en þá barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um að ungur maður, vopnaður skotvopni, væri á ferðinni í Breiðagerði í Reykjavík.

Fjölmennt lið lögreglunnar leitaði að piltinum og naut við það aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra. Hann fannst svo hjá ættingjum sínum í Breiðholti en þeir gerðu lögreglu viðvart og gaf pilturinn sig fram mótþróalaust en hann var síðan færður á viðeigandi stofnun.

Pilturinn, sem hefur áður komið við sögu hjá lögreglu, var með hlaðna skammbyssu í fórum sínum en hana hafði hann tekið ófrjálsri hendi. Faðir piltsins er skráður fyrir byssunni og hefur fyrir henni tilskilin leyfi. Fram hefur komið, að hann starfaði áður sem lögreglumaður í sérsveit lögreglunnar í Reykjavík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka