Skaut úr skammbyssunni

Sex­tán ára pilt­ur, sem var með hlaðna skamm­byssu í fór­um sín­um, hleypti af einu skoti á leik­velli í Háa­leitis­hverfi. Skaut hann á mann­laust hús, þar sem leik­skól­inn Jörvi er til húsa og fór kúl­an í gegn­um vegg þess. Fleiri skot­um var ekki hleypt af en pilt­ur­inn beindi byss­unni aldrei að öðrum, að sögn lög­regl­unn­ar.

Pilt­ur­inn var hand­tek­inn í Breiðholti skömmu fyr­ir miðnætti á föstu­dags­kvöld.  Hans hafði verið leitað frá því um kvöld­mat­ar­leytið sama dag en þá barst lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu til­kynn­ing um að ung­ur maður, vopnaður skot­vopni, væri á ferðinni í Breiðagerði í Reykja­vík.

Fjöl­mennt lið lög­regl­unn­ar leitaði að pilt­in­um og naut við það aðstoðar sér­sveit­ar rík­is­lög­reglu­stjóra. Hann fannst svo hjá ætt­ingj­um sín­um í Breiðholti en þeir gerðu lög­reglu viðvart og gaf pilt­ur­inn sig fram mótþróa­laust en hann var síðan færður á viðeig­andi stofn­un.

Pilt­ur­inn, sem hef­ur áður komið við sögu hjá lög­reglu, var með hlaðna skamm­byssu í fór­um sín­um en hana hafði hann tekið ófrjálsri hendi. Faðir pilts­ins er skráður fyr­ir byss­unni og hef­ur fyr­ir henni til­skil­in leyfi. Fram hef­ur komið, að hann starfaði áður sem lög­reglumaður í sér­sveit lög­regl­unn­ar í Reykja­vík.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert