„Svar mitt við spurningunni um umboðið frá landsfundi er skýrt og einfalt. Landsfundur á að fela forystumönum flokksins að standa vörð um ótvíræð og afdráttarlaus yfirráð yfir auðlindum okkar, hvort sem er í orði eða á borði," sagði Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins á fundi auðlindahóps Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í dag. Styrmir var þar framsögumaður auk Bjarna Benediktssonar þingmanns, sem tók fyrstur til máls. ,,Þótt einungis væri um að ræða formleg yfirráð Brüssel yfir auðlindum okkar, getum við ekki fallist á slíkt fyrirkomulag," sagði Styrmir.
Hann kvað Sjálfstæðisflokkinn alltaf hafa staðið vörð um lýðræðið. Í þessu máli eigi lýðræðið að fá að tala beint á vettvangi flokksins og vel geti komið til greina að efna til atkvæðagreiðslu meðal allra flokksbundinna Sjálfstæðismanna um það. ,,Við þann dómara yrði ekki hægt að deila á vettvangi flokksins. Niðurstaðan ætti að geta legið fyrir í vor eða upphafi sumars."
Þá sagði Styrmir að flokkurinn ætti að gera hið beina lýðræði að baráttumáli sínu og beita sér fyrri vandaðri löggjöf um það. Slíka löggjöf sagði Styrmir nauðsynlegan undanfara atkvæðagreiðslunnar um ESB.
Einnig lagði Styrmir til að landsfundur Sjálfstæðisflokksins feli forystumönnum að beita sér fyrir þverpólitísku samstarfi þar sem allir kostir í gjaldmiðilsmálum séu teknir til skoðunar. Sú könnun geti hafist þegar á þessum vetri og yrði stórt skref til málamiðlunar við Samfylkinguna, aðra flokka og fleiri aðila, en um leið virði flokksforystan þann grundvöll sem hún fékk umboð sitt á.
Þá sagði hann fráleitt að kjósa um aðild að ESB og kjósa til Alþingis á sama tíma. ,,Í næstu Alþingiskosningum fer fram pólitískt uppgjör um bankahrunið. Hið pólitíska uppgjör um bankahrunið getur ekki farið fram fyrr en niðurstöður [úr rannsókn á aðdragana þess] liggja fyrir, en þá á það líka að fara fram," sagði Styrmir. Niðurstöður fyrrnefndrar skoðunar á gjaldmiðilskostum geti legið fyrir á sama tíma og niðurstöður rannsóknarinnar á bankahruninu.
Styrmir kallaði líka eftir meiri heiðarleika Evrópusambandssinna í umræðunni. ,,Það er alveg ljóst að aðild þýðir að við afsölum okkur þó ekki væri nema formlegum yfirráðum yfir fiskimiðunum við Ísland. Þeir sem halda öðru fram eru að blekkja fólk. Það er heiðarlegra að segja sem svo að aðrir hagsmunir af því að ganga í ESB vegi þyngra. Þetta mál snýst fyrst og fremst um það hvort Íslendingar halda yfirráðum yfir þeim auðlindum sem þeir hafa barist fyrir á síðustu áratugum, eða ekki."
Styrmir fékk allnokkrar spurningar úr sal, líkt og Bjarni Benediktsson, enda var mjög vel mætt á fundinn, húsfyllir í Valhöll og gott betur. Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingmaður spurði Styrmi út í hættuna á því að til yrði annar hægriflokkur í íslenskum stjórnmálum, sem byggði stefnu sína á sömu gildum og Sjálfstæðisflokkurinn, en með aðrar áherslur í Evrópumálum. ,,Staða Sjálfstæðisflokksins í íslenskri pólitík hefur ekki byggst á því að hann láti undan þrýstingi frá öðrum, heldur á því að hann hafi markað sína stefnu og fylgt henni fram," svaraði Styrmir. Það ætti flokkurinn að gera í málefnum Evrópusambandsins nú.