Umræðuhættir á netinu

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er fjallað um umræður á netinu. Þar segir m.a. að afstaða Morgunblaðsins í því efni sé skýr. Bæði á prenti og á netinu vilji blaðið vera farvegur fjölbreyttra sjónarmiða og skoðanaskipta. Það vilji ekki verða skólpræsi fyrir þá, sem geta ekki komið fram við náungann af tilhlýðilegri virðingu og tillitssemi.

Leiðarinn fer hér á eftir:

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra skrifaði athyglisverðan pistil á bloggið sitt um helgina. Ráðherrann færir þar rök fyrir því að undanfarið hafi siðgildi í íslenzku samfélagi breytzt. „Þau birtast til dæmis með skýrum hætti í vaxandi umburðarlyndi fyrir ofbeldi í orði og verki,“ skrifar Össur. Hann segir að mótmælendur grípi í vaxandi mæli til ofbeldis og æ fleiri hvetji líka til ofbeldis.

„Annað dæmi um breytt siðgildi er orðbragðið sem á örskömmum tíma er orðið alsiða á netinu. Fyrir kemur að langar runur af athugasemdum við greinar á víðlesnum miðlum séu að töluverðum hluta formælingar, bölv og ragn, og stöku sinnum krydda nafnlausir skrifarar með lítt dulbúnum hótunum í garð viðkomandi höfundar,“ skrifar Össur. „Fínu miðlarnir tala stundum um DV einsog sorasnepil. Orðbragðið í DV þegar það gerist verst er þó einsog kristnifræðitexti miðað við þá notkun íslenskunnar sem Morgunblaðið veitir skjól á heimasíðum sem það hýsir á vefsvæði sínu.“

Iðnaðarráðherrann, sem lætur sér þó ekki allt fyrir brjósti brenna þegar að orðbragði á netinu kemur, hefur því miður margt til síns máls.

Morgunblaðið hefur áratugum saman verið opinn umræðuvettvangur, þar sem lesendur hafa átt greiðan aðgang að síðum blaðsins að segja álit sitt á efni þess eða tjá skoðanir sínar á þjóðmálum. Vefur blaðsins, mbl.is, varð á skömmum tíma vinsælasti vefur landsins og Morgunblaðið hefur viljað skapa einnig þar opinn umræðuvettvang. Það hefur gerzt með blogginu, þar sem oft fer fram lífleg umræða um fréttir og þjóðfélagsmál, sem stór hópur tekur þátt í; miklu stærri en gæti komizt að á hinu takmarkaða plássi í prentútgáfu Morgunblaðsins.

Það sama á við um aðsendar greinar í Morgunblaðinu og bloggið; að ritstjórn blaðsins vill teygja sig langt í þágu málfrelsis. Hún vill hins vegar ekki að blaðið eða vefurinn verði farvegur fyrir svívirðingar, hótanir og hatursfullan málflutning. Þess vegna hefur birtingu greina verið hafnað og bloggum lokað.

Ritstjórn Morgunblaðsins er iðulega sökuð um ritskoðun þegar hún tekur ákvarðanir af þessu tagi. Hér er hins vegar um að ræða viðleitni til þess að halda umræðum á siðuðum nótum og innan ramma laganna.

Í skilmálum, sem bloggarar á mbl.is samþykkja þegar þeir skrá bloggið sitt, kemur fram að þeir beri sjálfir ábyrgð á efninu á síðum sínum. Engu að síður áskilur Morgunblaðið sér rétt til að grípa inn í og loka bloggi eða loka fyrir athugasemdir um fréttir vefjarins, í þágu áðurnefndra sjónarmiða.

Eitt dæmi af þessu tagi kom upp um helgina, þar sem lokað var fyrir blogg um tvær fréttir um menn, sem höfðu í frammi ógnanir við mótmælendur á Austurvelli. Athugasemdirnar sem skrifaðar voru við fréttirnar voru að meginuppistöðu í anda lýsinga iðnaðarráðherrans; formælingar, bölv, ragn og hótanir. Eins og oft áður þegar fréttir virðast vekja slík viðbrögð, var lokað fyrir athugasemdir um fréttirnar.

Einhverjir lásu það út úr þeirri ákvörðun að verið væri að bera blak af mönnunum, sem um ræddi eða taka einhverja afstöðu með þeim og framkomu þeirra. Það er fjarri sanni.

Meðal annars vegna þeirrar breytingar í umræðuháttum, sem Össur Skarphéðinsson vekur athygli á, hefur Morgunblaðið að undanförnu þrengt að þeim, sem ekki vilja koma fram undir nafni á blog.is. Blaðið leyfir t.d. ekki lengur að bloggað sé um fréttir á vefnum nema viðkomandi komi fram undir fullu nafni, eins og það er skráð í þjóðskrá. Morgunblaðið hefur ekki áhuga á að verða vettvangur fyrir skammir, svívirðingar og hótanir fólks sem ekki þorir að koma fram undir réttu nafni.

Blaðið hefur líka gripið til aðgerða gegn þeim, sem villa á sér heimildir á netinu. Um áramótin stal einhver óprúttinn bloggari nafni og kennitölu manns í þeim tilgangi að koma á framfæri alls konar svívirðingum, klámi og fleiru slíku í athugasemdum og bloggpistlum í hans nafni. Morgunblaðið hefur falið lögfræðingi sínum að fara fram á lögreglurannsókn á þessu athæfi.

Svipað mál, sem sneri að prentútgáfu blaðsins, kom upp fyrir nokkrum árum. Þá sendi maður inn greinar til blaðsins undir nafni annars manns, sem var illa brugðið þegar hann sá greinar í sínu nafni í blaðinu. Þetta kærði Morgunblaðið til lögreglunnar. Þegar rannsókn hennar beindist að hinum rétta höfundi, kom hann til blaðsins og óskaði eftir að birta í blaðinu yfirlýsingu, þar sem hann gekkst við því að vera höfundur greinanna og baðst afsökunar.

Það er ekki alveg einfalt mál að starfrækja opinn umræðuvettvang á netinu og tryggja um leið að þar sé velsæmis gætt í skrifum. Lítill hópur bloggara, sem fer iðulega yfir strikið, getur komið óorði á hinar frjálsu umræður.

Afstaða Morgunblaðsins í þessu efni er skýr. Bæði á prenti og á netinu vill blaðið vera farvegur fjölbreyttra sjónarmiða og skoðanaskipta. En það vill ekki verða skólpræsi fyrir þá, sem geta ekki komið fram við náungann af tilhlýðilegri virðingu og tillitssemi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka