Ung vinstri græn á höfuðborgarsvæðinu harma þann niðurskurð sem gerður hefur verið þvert á hagsmuni þeirra sem minna mega sín. Það hefur sýnt sig á þessu kjörtímabili að stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar starfar ekki með hag almennings fyrir brjósti.
„Niðurskurður við Þjóðkirkjuna er þó mikið fagnaðarefni. Þær 400 milljónir sem sparaðar eru, eru stórt skref í átt að aðskilnaði ríkis og kirkju. Fjárlög til Þjóðkirkjunnar hlíta engan veginn þeim lögum að trúfrelsi ríki hér á landi og byggja á miklu ójafnrétti. Ung vinstri græn á höfuðborgarsvæðinu krefjast tafarlauss aðskilnaðar, sú krafa rímar við fjölda ályktana frá hreyfingunni sem og við sparnaðaráætlun Ungra vinstri grænna sem samþykkt var á landsfundi á Akureyri 4. -5. október sl.
Það er enn hægt að skera fitulögin niður og hlífa frekar þeim kjötlausu beinum sem ríkisstjórnin virðist fyrst ráðast að gráðug," að því er segir í ályktun.