Veltan minnkar um 77,8% á fasteignamarkaði

mbl.is

Alls var 157 kaupsamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í desember 2008 og var heildarveltan 4,3 milljarðar króna. Í desember 2007 var 542 kaupsamningum þinglýst og veltan nam 19,5 milljörðum króna. Hefur kaupsamningum því fækkað um 71% og veltan minnkað um 77,8%.

Meðalupphæð á hvern kaupsamning í desember 2008 var 27,6 milljónir króna samanborið við 36 milljónir króna í desember 2007. Viðskipti með eignir í fjölbýli námu 3,2 milljörðum, viðskipti með eignir í sérbýli 0,9 milljörðum og viðskipti með aðrar eignir 0,2 milljörðum króna í desember 2008.

Fjöldi makaskiptasamninga um íbúðarhúsnæði sem þinglýst var á höfuðborgarsvæðinu í desember 2008 var 49. Á sama tíma var 1 kaupsamningur þar sem hluti greiðslu var lausafé. Með makaskiptasamningi er átt við kaupsamning um fasteign þar sem hluti kaupverðs er greiddur með annarri fasteign.

Þegar desember 2008 er borinn saman við nóvember 2008 fækkar kaupsamningum um 1,3% og velta minnkar um 8%. Í nóvember 2008 var þinglýst 159 kaupsamningum, velta nam 4,7 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning 29,6 milljónir króna, að því er segir á vef Fasteignaskrár Íslands.

13 kaupsamningum þinglýst á Akureyri

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir á Akureyri í desember 2008 var 13. Þar af voru 9 samningar um eignir í fjölbýli, 2 samningar um eignir í sérbýli og 2 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 402 milljónir króna og meðalupphæð á samning 30,9 milljónir króna.

Á sama tíma var 8 samningum þinglýst á Árborgarsvæðinu. Þar af voru 2 samningar um eignir í fjölbýli, 2 samningar um eignir í sérbýli og 4 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 189 milljónir króna og meðalupphæð á samning 23,7 milljónir króna.

Á sama tíma var 7 samningum þinglýst á Akranesi. Þar af var 3 samningar um eignir í fjölbýli og 4 samningar um eignir í sérbýli. Heildarveltan var 153 milljónir króna og meðalupphæð á samning 21,8 milljón króna.

Á sama tíma var 28 samningum þinglýst í Reykjanesbæ. Þar af voru 19 samningar um eignir í fjölbýli, 2 samningar um eignir í sérbýli og 7 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 484 milljónir króna og meðalupphæð á samning 17,3 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert