Staða Íslendinga vegna Icesave og möguleg málsókn á hendur Bretum var til umræðu á fundi utanríkismálanefndar í morgun.
Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, telur líklegt að annað hvort Landsbankinn eða Kaupþing muni höfða mál gegn breskum stjórnvöldum vegna beitingar hryðjuverkalaga. Frestur til þess rennur út innan tveggja sólarhringa. Hann segist hinsvegar ekki geta metið möguleikann á því að íslensk stjórnvöld höfði slíkt mál en þar sé meiri tími til stefnu.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, segir hinsvegar að von sín um málsókn hafi dvínað eftir að hafa hlýtt á þær upplýsingar sem fram komu á fundinum og hefur beðið um fund með formönnum allra flokka vegna málsins.
Formaður Vinstri grænna segir að hagsmunagæsla íslenskra stjórnvalda sé vítaverð ef þau láti ekki reyna á málsókn gagnvart Bretum. Hann segist hafa bundið vonir við það fram að fundi utanríkismálanefndar í morgun að bæði Landsbankinn og ríkið myndu höfða slíkt mál.
Það sé hætt við að vígstaða landsins vegna Icesave verði engin ef ekki verði af málsókn en hún sé nú þegar lítil vegna samkomulags íslenskra stjórnvalda og Breta frá 19. nóvember. Hann segir að Landsbankinn og ríkið þurfi að höfða mál að sínu mati en tilteknir frestir renni út á miðvikudaginn. Það sé svo annað mál hvort Kaupþing fari í mál en þar sé nægur tími til stefnu.