„Við höfum kynnt félagið og stöðu þess fyrir þeim sem sýnt hafa starfseminni áhuga og þessir aðilar þurfa síðan að eiga viðræður við Nýja Glitni í framhaldinu. Ég geri ráð fyrir að það verði 2 til 4 hópar sem taki málið lengra. Markmiðið var að ná inn nýjum fjárfestum fyrir áramót en ýmislegt setti þær áætlanir úr skorðum. Við gerum ráð fyrir að við sjáum til lands í málinu um miðjan janúar,“ segir Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins. Ætlunin er að afla eins milljarðs króna í nýtt hlutafé. Einar segir samvinnu við Fréttablaðið um prentun og dreifingu vonandi komast á í febrúar.
Um mánaðamótin nóvember - desember kynntu forsvarsmenn Árvakurs að félagið ætlaði að leita nýs hlutafjár. Þetta var gert í samráði við viðskiptabanka Árvakurs, Glitni. Hluti af því ferli og í raun forsenda endurskipulagningar, var að eldri hluthafar, afskrifuðu allt sitt hlutafé í félaginu. Endurfjármögnun félagsins snýst því fyrst og fremst um að tryggja áfram hnökralausa útgáfu og verja hagsmuni lánardrottna.
Tæplega 20 aðilar, höfðu samband við stjórnendur Árvakurs þegar áformin voru kynnt og var rætt við alla og staða félagsins kynnt skömmu fyrir jól. Nú eru horfur á að 2 til 4 hópar taki málið lengra í viðræðum við Glitni.
Gengistapið rúmir 2 milljarðar
Skuldir Árvakurs um áramót voru rúmlega 4 milljarðar króna. Þar af nemur gengistap rúmlega tveimur milljörðum króna. Lán hjá Glitni vegna prentsmiðju stóð um áramótin í 2.760 milljónum króna og önnur veðlán hjá Glitni í 444 milljónum króna. Þá stóðu fjárfestingar- og rekstrarlán Glitnis til Árvakurs í 332 milljónum króna um áramót og sambærilegt lán Landsbankans til Árvakurs stóð í 897 milljónum.
Öll hafa þessi lán gengistryggingar og hafa því hækkað gríðarlega í kjölfar veikingar krónunnar. Sem dæmi þá nam lán Landsbankans upphaflega um 450 milljónum en stóð í desember í 897 milljónum króna.
Einar Sigurðsson segist sannfærður um að Árvakur eigi veruleg sóknarfæri. Skuldsetningin sé hins vegar erfið og skortur á lausafé hamli sókn.
Starfsemi 24 stunda er komin út úr rekstri Árvakurs og launagreiðslum starfsmanna á uppsagnarfresti lýkur í janúar. Aðgerðir til lækkunar kostnaðar eru komnar til framkvæmda en á síðustu tveimur til þremur árum hefur stöðugildum fækkað um rúmlega 80 og launakostnaður dregist saman um 600 milljónir króna á tímabilinu.
Í upphaflegri áætlun fyrir árið 2008 var gert ráð fyrir að EBITDA eða hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, yrði 340 milljónir króna. Mikil áföll urðu hins vegar í tekjumyndun, verulegur samdráttur varð á auglýsingamarkaði og umtalsverður kostnaður féll til á síðasta ársfjórðungi vegna þess að félagið hætti starfsemi 24 stunda. EBITDA ársins 2008 verður því að líkindum neikvæð um á sjötta hundrað milljónir króna. EBITDA ársins 2009 var upphaflega áætluð um 270 milljónir króna en hún mun væntanlega verða eitthvað lægri vegna tafa á sameiningu prentstarfsemi og dreifingar með Fréttablaðinu.
„Ég vona að við getum klárað það mál í febrúar. Öll töf á því er mjög dýr fyrir bæði félögin,“ segir Einar Sigurðsson.