Málarekstur í Bretlandi, fyrir hönd skilanefndar Kaupþings, er að hefjast. Leitað verður álits hjá dómstóli í London um hvort bresk stjórnvöld hafi fullnægt skilyrðum laga þegar þau ákváðu að yfirtaka innlánsreikninga Kaupthing Edge 8. október 2008 og settu Kaupthing Singer & Friedlander í greiðslustöðvun.
Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra áttu fund í gær með fulltrúum skilanefndar Kaupþings. Ráðherrarnir höfðu áður átt fund með skilanefnd Landsbankans vegna hugsanlegra málaferla í Bretlandi. Geir sagði á blaðamannafundi í gær að skilanefnd Kaupþings og skilanefnd Landsbankans myndu njóta stuðnings íslensku ríkisstjórnarinnar við málarekstur í Bretlandi.
Skilanefnd Kaupþings hefur fengið nokkrar breskar lögmannsstofur til liðs við sig við undirbúning málsins. Einni þeirra var falið að ganga frá beiðni til breska dómstólsins um lögfræðilega skoðun málsmeðferðarinnar. Í gærkvöldi var ekki búið að ganga endanlega frá beiðninni, að sögn Steinars Þórs Guðgeirssonar, formanns skilanefndar Kaupþings.
Frestur til að óska eftir áliti dómstóls á lögmæti aðgerðanna rennur út kl. 16.00 á morgun. Steinar sagði þennan skamma frest skýrast af eðli beiðninnar, hann væri skemmri en gilti um venjuleg dómsmál. Ekki liggur fyrir hve lengi dómstóllinn verður að fara yfir málið og gefa álit.
Steinar sagði ómögulegt að gera sér grein fyrir því nú hvað þessi málarekstur mundi kosta, því ekki væri ljóst hvert umfang málsins yrði.
Fjallað verður um málið á fundi ríkisstjórnarinnar í dag.