Neðri Þjórsá ekki virkjuð til álbræðslu

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, er harðlega gagnrýndur af umhverfisverndarfólki í Samfylkingunni fyrir fjárfestingarsamning vegna níutíu þúsund tonnum stærra álver í Helguvík en upphaflega stóð til.

Össur segir gagnrýnina skiljanlega og hann og aðrir ráðherrar eigi að hafa aðhald. Fjárfestingarpakkinn fyrir álver í Helguvík sé þó  í raun síðri en sá sem hafi verið í boði vegna fyrirhugaðra álversframkvæmda í Þorlákshöfn og framundan sé fjöldaatvinnuleysi. Samningurinn hafi verið nauðsynlegur til að hægt væri að afla fjármagns til álversins en á framkvæmdatímanum eiga að verða til á þriðja þúsund störf.

Össur segist alls ekki útiloka að virkjað verði í  Neðri-Þjórsá en ríkisstjórnin sé sammála um að sú orka verði ekki nýtt til álbræðslu. Það sé því útilokað. Leitað hefi verið eftir orku þaðan vegna framkvæmda í Helguvík en því hafi verið hafnað. Dregið hefur verið í efa að hægt sé að afla orku til stærra álvers í Helguvík án þess að fara í Neðri-Þjórsá en Össur segir að ef svo reynist vera sé það á ábyrgð fyrirtækisins en ekki hans eða Neðri-Þjórsár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert