Flestir treysta RÚV

Meðal netfréttamiðla nýtur mbl.is mests trausts, en 64% segjast bera mikið traust til mbl.is, samkvæmt nýrri könnun Markaðs- og miðlarannsókna, (MMR). Þetta er sama hlutfall og í síðustu könnun MMR 5. desember 2008.

Morgunblaðið er enn sem fyrr það dagblað sem nýtur mests trausts lesenda, samkvæmt könnuninni en 64% segjast nú bera mikið traust til blaðsins sem er einu prósentustigi hærra en þegar síðast var mælt.

Fréttastofa Sjónvarpsins (RÚV) nýtur mests trausts meðal almennings. Tæp 82% aðspurðra segjast bera mikið traust til Fréttastofu RÚV. Þetta er nokkur aukning frá könnun sama efnis í byrjun desember, þegar tæp 77% sögðust bera mikið traust til fréttastofunnar. Fréttastofa RÚV er þar með sá fjölmiðill sem nýtur áberandi mests trausts meðal svarenda í könnuninni.

Traustið minnkar á Fréttablaðinu samkvæmt könnun MMR. Minna en helmingur svarenda segist nú bera mikið traust til Fréttablaðsins eða 41,2%. Í könnun MMR í desember sögðust 45,2% treysta Fréttablaðinu.

Sé horft til fjölda þeirra sem segjast bera lítið traust til fjölmiðlanna kemur í ljós að fleiri segjast nú bera lítið traust til allra fjölmiðlanna nema RÚV, samanborið við mælingu í byrjun desember.

Mest er breytingin gagnvart DV, en 81% segjast nú bera lítið traust til blaðsins samanborið við 69% áður.

Hvað varðar aðra miðla má nefna að visir.is nýtur nú lítils trausts meðal 27% svarenda samanborið við 20% áður.

Fréttablaðið nýtur lítils trausts meðal 24,5% svarenda samanborið við 17,7% áður.

Eyjan.is nýtur nú lítils trausts meðal 18,8% samanborið við 13,4% áður og Viðskiptablaðið nýtur lítils trausts meðal 14,8% nú samanborið við 9,8% áður.

Breytingar á fjölda þeirra sem kváðust bera lítið traust til annarra fjölmiðla voru óverulegar.

Könnunin var framkvæmd dagana 19. til 23. desember. Spurt var: Hve mikið eða lítið traust berð þú til eftirfarandi aðila. Svarmöguleikar voru mjög lítið traust, frekar lítið traust, hvorki mikið né lítið traust, frekar mikið traust, mjög mikið traust og veit ekki.

805 einstaklingar á aldrinum 18 til 67 ára voru valdir handahófskennt úr þjóðskrá. Um síma- og netkönnun var að ræða og tóku 99,5% afstöðu til spurningarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert