„Kjarasamningur Klafa rann út 1. desember og hafa viðræður því miður gengið afar treglega og er þar vægt til orða tekið,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness á heimasíðu félagsins.
Hann vísar þar til kjarasamninga starfsmanna sem sjá um upp- og útskipanir á Grundartangasvæðinu, ásamt því að þjónusta bæði Norðurál og Elkem Ísland.
Verkalýðsfélag Akraness hefur átt í viðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna kjarasamnings starfsmanna Klafa. Vinna starfsmanna Klafa hefur aukist umtalsvert á liðnum árum vegna þeirrar þenslu sem verið hefur á Grundartangasvæðinu, samhliða stækkun Norðuráls og Elkems Íslands. Sem dæmi þá komu 271 skip í Grundartangahöfn á síðasta ári sem er töluverð fjölgun frá árinu áður.
„Krafa félagsins er skýr en hún er sú að launahækkanir verði með sama hætti og þær hækkanir sem starfsmenn Elkem Ísland fengu, en þeir eru á sama starfssvæði og starfsmenn Klafa starfa á. Samningur Elkem gaf starfsmönnum frá rúmum 17% við undirskrift og upp í 22% á samningstímanum,“ segir Vilhjálmur Birgisson á heimasíðu félagsins.
Deilan hefur verið hjá ríkissáttasemjara og hefur verið nokkuð snörp. Vilhjálmur vonast til að aðilar nái saman í byrjun næstu viku en þá hefur ríkissáttasemjari boðað til fundar.
Vilhjálmur segir að félagið muni ekki hvika frá þeirri kröfu að hækkanir til starfsmanna Klafa verði með sama hætti og hjá starfsmönnum Elkem Ísland.