Guðmundur Steingrímsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, hefur sagt sig úr flokknum og gengið í Framsóknarflokkinn. Segir Guðmundur í samtali við Fréttablaðið í dag, að hann ætli af heilum hug að taka þátt í því endurreisnarstarfi, sem fyrir höndum er í Framsóknarflokknum.
Guðmundur segist ekki vera sáttur við ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og segir að atburðarás síðustu mánaða hafi einkennst af fáti, fyrirhyggjuleysi og skorti á gagnsæi. „Ég get ekki séð að þessi atburðarás rími við grundvallarhugsjónir Samfylkingarinnar og ég veit að margir innan flokksins eru sammála mér um það segir hann.
Guðmundur er sonur Steingríms Hermannssonar, fyrrum formanns Framsóknarflokksins og forsætisráðherra og sonarsonur Hermanns Jónassonar, sem gegndi sömu embættum á sínum tíma. Guðmundur segir aðspurður að ekki hafi komið til tals að hann bjóði sig fram til formanns Framsóknarflokksins.