Geir H. Haarde forsætisráðherra segir það mikinn misskilning, sem gætt hefur undanfarið, að ekkert hafi verið gert varðandi málarekstur á hendur breskum stjórnvöldum vegna aðgerða þeirra gagnvart íslensku bönkunum. Hann upplýsti á blaðamannafundi í gær að skilanefnd Kaupþings mundi fara í mál við breska ríkið fyrir að hafa sett dótturfélagið Kaupthing Singer & Friedlander í greiðslustöðvun í haust. Skilanefnd Landsbankans er einnig að athuga sín mál varðandi málsókn en annars konar frestir til málshöfðunar gilda um mál Landsbankans en mál Kaupþings.
„Það er búið að vinna í þessu máli baki brotnu á vegum skilanefndarinnar; margir erlendir lögmenn hafa komið að því og málið verið undirbúið eins vel og hægt er. Skilanefndin mun sjálf skýra frá því hvernig að öllu því hefur verið staðið. Ég tel að það sé til fyrirmyndar,“ sagði Geir um mál Kaupþings. Auk málareksturs í Bretlandi er einnig verið að athuga með að leita til Mannréttindadómstólsins í Strassborg. Þar eru frestir rýmri.
Geir lagði áherslu á að þessi málaferli væru annað mál og í öðrum farvegi en deilan og væntanlegir samningar um Icesave-reikningana.
Ríkisstjórnin hefur fengið sérstaka lagaheimild til þess að styðja við bakið á skilanefndunum og stofna til fjárútláta til stuðnings þessum málarekstri.
„Við hyggjumst nýta okkur þessar lagaheimildir og teljum mjög mikilvægt að á það verði látið reyna hvort lögum í Bretlandi hafi verið misbeitt gegn íslenskum hagsmunum,“ sagði Geir.
Fjórar breskar lögmannsstofur hafa komið að undirbúningi máls Kaupþings, hver með sínum hætti. Geir sagði að Landsbankinn og íslenska ríkið hefðu einnig verið með breska lögmenn í sinni þjónustu vegna þessara mála. Aðspurður sagði Geir að ekki lægju fyrir upplýsingar um hvað þessi málarekstur mundi kosta. Hins vegar væri ljóst að málarekstur af þessu tagi væri kostnaðarsamur og að lögmenn í Bretlandi væru mjög dýrir vinnukraftar.
„Lögin sem ég vísaði til og Alþingi samþykkti fyrir jólin gera ráð fyrir því að íslenska ríkið geti tekið þátt í slíkum kostnaði. Við erum ekki farin að vega eða meta hvað hann má nema miklum upphæðum. Stundum getur verið dýrt að leita réttar síns. Svo er líka spurning hvort út úr þessum málarekstri gæti unnist skaðabótamál gagnvart breska ríkinu. Þá auðvitað breytast allar hugmyndir um kostnað,“ sagði Geir. Hann sagði það hluta af réttarríkinu, bæði hér og í Bretlandi, að leita réttar síns. Geir kvaðst treysta breskum dómstólum ágætlega.
Geir taldi afar ólíklegt að íslensk stjórnvöld höfðuðu mál á hendur Bretum fyrir að beita okkur hryðjuverkalögum. „Við teljum að mjög vel athuguðu máli litlar líkur á að slíkt mál gæti unnist og að það sé betra fyrir okkur að standa frekar þétt að baki skilanefndunum tveimur.“
Fjármálaráðherra skrifaði breskum stjórnvöldum og óskaði eftir því að beitingu hryðjuverkalaga gegn Íslandi yrði hætt. Geir vissi ekki til þess að borist hefði svar við bréfinu.