Samþykki Alþingi frumvarp til nýrrar matvælalöggjafar sem nú liggur fyrir þinginu, hefur Ísland tekið upp matvælalöggjöf ESB að langmestu leyti. Samkvæmt frumvarpinu verður m.a. leyft að flytja inn hrátt, ófrosið kjöt.
Íslendingar sömdu þó um mjög mikilvæga undanþágu, þ.e. að áfram verður bannað að flytja inn lifandi dýr. Íslendingar yrðu að semja um að sú undanþága yrði áfram í gildi. Að sögn þeirra embættismanna sem Morgunblaðið ræddi við ætti það að vera tiltölulega auðsótt, svo lengi sem Íslendingar gætu sýnt fram á það með fræðilegum rökum að hætta stafaði af innflutningi af lifandi dýrum og slík rök væru svo sannarlega fyrir hendi. Þá bentu þeir einnig á að stefna ESB væri að vernda fjölbreytileika búfjárstofna. Það væri engum í hag ef íslenskir búfjárstofnar hryndu niður af völdum sótta.