Bresk hjón á fimmtugsaldri sluppu naumlega þegar goshverinn Geysir í Haukadal gaus um hádegisbilið þann 29. desember sl. Þetta kemur fram á vef Félags leiðsögumanna.
Heitt vatn spýttist úr hvernum og nokkrir dropar féllu á bak hjónanna um leið og þau hlupu á brott. Það var þeim til happs að þau voru íklædd þykkum úlpum þannig að þau sakaði ekki, segir á vef félagsins.
Hjónin voru í 10-12 manna hópi sem var að skoða hverasvæðið. Íslenskur leiðsögumaður átti leið hjá og heyrði dynki sem eru fyrirboði goss. Hann áttaði sig á hættunni sem steðjaði að fólkinu og hrópaði viðvörunarorð til hjónanna. Þau brugðust við og forðuðu sér frá hvernum.
Að sögn staðkunnugra sem mbl.is ræddi við gýs Geysir um þrisvar til fimm sinnum á sólarhring. Vatnið fer ekki mjög hátt eða um 10 metra. Geysir er hins vegar talsvert breiðari en Strokkur, sem gýs mjög reglulega, auk þess sem hann lætur ekki vita af sér með sama hætti. Súla myndast t.d. áður en Strokkur gýs.