Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna í Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur óskuðu í dag eftir upplýsingum um hvaða efni eru í þeim úða sem lögreglan notar gegn mótmælendum. Fyrirspyrjendur segja að samkvæmt fréttum í erlendum fjölmiðlum hafi notkun á slíkum úða leitt til alvarlegra skaða á heilsu manna og í einhverjum tilfellum til dauðsfalla.
Lögregla hefur gripið til notkunar varnarúða í nokkrum tilvikum þar sem mótmælt hefur verið. Síðast var varnarúða beitt á hóp mótmælenda sem ruddist inn á Hótel Borg til að trufla útsendingu Stöðvar 2 á þættinum Kryddsíld. Tugir mótmælenda þurftu á aðhlynningu að halda.
Fyrirspurn VG og Samfylkingarinnar um efnainnihald varnarúða lögreglunnar var lögð fram á fundi Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur í dag. Fulltrúarnir spurðu ennfremur um hvort á vegum heilbrigðiseftirlitsins, væru til til leiðbeiningar um hvernig bregðast skuli við heilsufarslegum áhrifum af slíkum úða og hvort fyrir lægju verklagsreglur og vinnuleiðbeiningar fyrir heilbrigðisstarfsfólk um viðbrögð við alvarlegum tilvikum sem geti fylgt notkun úðans.
Loks er spurt hvort að mati heilbrigðiseftirlitsins, sé nauðsynlegt að koma á framfæri við almenning ráðgjöf varðandi viðbrögð vegna áhrifa úðans.