Mörg sveitarfélög hafa sýnt vilja og áhuga á því að taka yfir rekstur heilsugæslustöðva og heimahjúkrunar á sínu svæði, og í einhverjum tilvika sjúkrahúsa sem samofin eru heilsugæslunni.
„Við stigum fyrsta skrefið með því að færa heimahjúkrun í borginni yfir til Reykjavíkurborgar, sem er mjög stórt mál. Við höfum tekið vel í þessi erindi og erum opin fyrir því að ræða við fleiri sveitarfélög,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra en hann hefur í flestum tilvikum átt frumkvæði að þessum viðræðum.
Hann bendir á að góð reynsla sé hjá Akureyrarbæ og Höfn í Hornafirði af rekstri heilsugæslustöðva, sem í fyrstu var tilraunaverkefni en í báðum tilvikum er kominn á samningur milli þeirra og ríkisins um reksturinn.
„Augljóst er að sveitarfélögin eru mjög misjöfn að stærð og gerð. Við byrjuðum á heimahjúkruninni í Reykjavík og síðan hafa bæst við fleiri sveitarfélög sem vilja koma að rekstri heilsugæslustöðvanna. Í einhverjum tilvikum getur einnig verið um sjúkrahús að ræða og við munum bara skoða það með hverju sveitarfélagi fyrir sig,“ segir Guðlaugur Þór en spurður segir hann þennan áhuga sveitarfélaga engin áhrif hafa á þau áform stjórnvalda að ein heilbrigðisstofnun verði í hverju heilbrigðisumdæmi, líkt og fram kom í frumvarpi til fjárlaga ársins 2009.
Forsvarsmenn sveitarfélagsins Skagafjarðar áttu fund með heilbrigðisráðherra um þessi mál skömmu fyrir jól. Gunnar Bragi Sveinsson, formaður byggðaráðs, segir við Morgunblaðið að í kjölfar þess fundar hafi sveitarstjórnin ákveðið að óska eftir formlegum viðræðum við ráðuneytið um að sveitarfélagið tæki yfir rekstur Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki. Ráðherra hafi verið jákvæður fyrir því að skoða þann möguleika.