Gengi Ísland í ESB yrði sameiginlega landbúnaðarstefnan tekin upp hér á landi með þeirri aðlögun og þeim undanþágum sem um myndi semjast. En hvað væri hægt að semja um?
Í samningaviðræðunum myndu Íslendingar án vafa líta til reynslu Finna og Svía sem sömdu um að geta styrkt landbúnað á heimskautasvæðum og á harðbýlum svæðum umfram það sem gerist og gengur í ESB. Vegna þessara samninga hafa Finnar nú heimild til að veita 35% meiri styrki til landbúnaðar en meðaltal ESB.
Sérstakur stuðningur við heimskautalandbúnað nær til þess svæðis sem er norðan 62° breiddargráðu og það vill svo til að allt Ísland er norðar en það. Þá má einnig styðja sérstaklega við bakið á landbúnaði á harðbýlum svæðum og allar líkur eru taldar á að Ísland allt myndi falla undir þá skilgreiningu. Engin ástæða er til að ætla annað en að Íslendingar gætu samið um að minnsta kosti sambærilegan stuðning við sinn landbúnað eins og Finnar sömdu um.
Íslenskur landbúnaður gæti sem sagt notið styrkja umfram það sem gengur og gerist í ESB en þeir fjármunir yrðu að langmestu leyti greiddir úr ríkissjóði Íslands.
Hversu mikill sá stuðningur yrði færi annars vegar eftir því hvaða samning væri hægt að gera við ESB og hins vegar eftir því hversu mikið Íslendingar gætu og vildu borga aukalega til innlends landbúnaðar.
Samningar á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO settu verulegt strik í (bú)reikninginn en skv. samningsdrögunum myndu tollar lækka og styrkjakerfið breytast.
Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtakanna, telur að hægt væri að „halda betur utan um“ landbúnaðinn utan sambandsins, jafnvel þótt samið yrði á vettvangi WTO. „Á mannamáli þýðir það minni samdrátt. Þetta segi ég miðað við að annað verði óbreytt og niðurstaða í yfirstandandi WTO-viðræðum í takt við fyrirliggjandi samningsdrög og að íslensk stjórnvöld myndu ekki ganga lengra í því að breyta landbúnaðarstefnunni.“