Vel fylgst með skólamáltíðum

Kátir skólakrakkar.
Kátir skólakrakkar.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir litla sem enga umræðu hafa farið fram innan stjórnarinnar um skólamáltíðir og ekkert verið rætt um hvort taka eigi upp gjaldfrjálsar máltíðir í grunnskólunum. Almennt sé það ekki yfirlýst stefna sveitarfélaganna að bjóða upp á ókeypis skólamáltíðir. Hvert og eitt sveitarfélag verði að taka sínar ákvarðanir í þessum efnum. Hins vegar sé mjög mikilvægt að fylgjast vel með þróun mála og hvort mataráskriftum verði sagt upp í stórum stíl. Fari að bera á því verði sveitarfélögin að bregðast við.

Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi VG í borgarstjórn, ritar grein í Morgunblaðinu í gær þar sem hún segir að samræmt gjald í grunnskólum Reykjavíkur sé áfangi að gjaldfrjálsum skólamáltíðum, sem hafi verið baráttumál vinstri grænna frá síðustu borgarstjórnarkosningum.

Halldór segist hafa þá persónulegu afstöðu að skólamáltíðir séu ákveðin þjónusta með hóflegu gjaldi, með þeim hætti að foreldrar verði ekki fyrir aukaútgjöldum. Verið sé að skipta á hollari mat fyrir sama pening og ef nemendur væru nestaðir að heiman.

„Við þurfum að fylgjast vel með hver þróunin verður. Ég tel að sveitarfélög hafi almennt ekki mikið svigrúm til að bjóða upp á ókeypis skólamáltíðir núna. Ef til uppsagna á mataráskrift kemur verður að meta hvert tilvik fyrir sig. Það er mín skoðun að það sé alltaf spurning um hve langt á að ganga í að hafa þjónustu sveitarfélaganna gjaldfrjálsa. Öll sveitarfélög eru nú að leita leiða til að vera rekstrarhæf og halda frekar aftur af gjaldskrárhækkunum,“ segir Halldór.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert