Vestmannaeyjabær með danska ferju í sigtinu

Vestmannaferjan Herjólfur
Vestmannaferjan Herjólfur

Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum, sem hafa undanfarið verið að leita að hentugri ferju til að sigla upp í Landeyjarhöfn, hafa verið að skoða skip í Danmörku. Þetta kemur fram á vef Eyjafrétta.

Þar segir að Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, hafi staðfest í samtali við Fréttir að bæjaryfirvöld hafi á síðustu vikum verið með menn á sínum snærum við úttekt á hentugri ferju og nú sé verið að horfa til skips í Danmörku. „Það er rétt að Grímur Gíslason og Bárður Hafsteinsson skipaverkfræðingur hafa verið að skoða þessi mál fyrir okkar hönd,“ er haft eftir Elliða.

Elliði vill þó ekki meina að ástæða þess að Vestmannaeyjabær gengur nú fram með þessum hætti sé að vantraust hafi skapast milli Vestmannaeyjabæjar og Samgönguráðuneytisins. „Nei hér er á engan hátt um slíkt að ræða. Þessi vinna er unnin bæði með vitund og vilja samgönguráðherra og Siglingastofnunar þótt Vestmannaeyjabær leiði hana fyrstu skrefin. Ég hef haldið fulltrúum ríkisins alveg upplýstum hvað þetta varðar enda fer málið núna til umfjöllunar í stýrihópi ráðherra þar sem það verður unnið áfram.“

Aðspurður segir Elliði að hann voni að danska ferjan komi til með að reynast hentug þótt enn sé langt í frá hægt að fullyrða að svo sé.  „Þessi ferja sem hér um ræðir er smíðuð árið 1998 og er um 70 metrar á lengd. Ganghraðinn (servicespeed) er um 14 hnútar.  Hún ber allt að 90 bíla og 550 farþega. Fulltrúar okkar hafa þegar farið til Danmerkur og skoðað skipið en slíkt var gert í tengslum við tilboð okkar heimamanna í fyrra vor. Mat þeirra var að skipið liti vel út og gæti orðið hentugt ef ákveðnar forsendur ganga eftir.  Lykilatriðið hvað þessa ferju varðar er hversu grunnrist hún er.  Samkvæmt okkar upplýsingum þá er djúprista hennar innan við þá 3,2 metra sem miðað er við til þess að ekki þurfi að koma til meiri frátafa vegna sjávarstöðu,“ segir bæjarstjórinn í samtali við Eyjafréttir.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert