Skráð mál hjá umboðsmanni Alþingis á árinu 2008 voru alls 346 og þar af voru kvartanir 340 og frumkvæðismál 6. Málum fjölgaði um rúm 12% frá árinu 2007 og þar af var fjölgun kvartana 16,4%. Er þetta næst mesti fjöldi mála sem skráð hafa verið á einu ári hjá umboðsmanni frá því að embættið hófs störf árið 1988 en flest voru máli árið 1997 eða 360.
Umboðsmaður afgreiddi á árinu 2008 alls 354 mál og er það mesti fjöldi afgreiddra mála á einu ári frá upphafi. Afgreidd mál á árinu 2007 voru 265 og er fjölgun afgreiddra mála því milli ára rúm 33%. Auk umboðsmanns störfuðu að jafnaði níu starfsmenn á skrifstofu umboðsmanns við afgreiðslu mála á árinu 2008 og er það sami fjöldi og síðustu ár, að því er segir í tilkynningu.
Róbert Spanó starfandi umboðsmaður
Kjörinn umboðsmaður Alþingis Tryggvi Gunnarsson verður frá og með 1. janúar 2009 í leyfi frá daglegum starfsskyldum umboðsmanns vegna starfa sinna sem umboðsmaður Alþingis í rannsóknarnefnd Alþingis sem fjallar um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Stefnt er að því að nefndin skili endanlegri skýrslu um rannsóknina til Alþingis eigi síðar en 1. nóvember 2009.
Meðan Tryggvi er í leyfi hefur Róbert Spanó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, verið settur til að sinna starfi umboðsmanns og tekur hann við afgreiðslu þeirra mála sem liggja fyrir hjá embættinu og nýrra mála sem berst nema hvað Tryggvi mun ljúka afgreiðslu á fimm málum sem eru á lokastigi og Róbert getur ekki sinnt vegna fyrri starfa.