Bleikir leigubílar söfnuðu 6,3 milljónum króna

Leigubílstjórar hjá Hreyfli-Bæjarleiðum söfnuðu alls 6,3 milljónum króna
Leigubílstjórar hjá Hreyfli-Bæjarleiðum söfnuðu alls 6,3 milljónum króna mbl.is/Golli

Leigubílstjórar hjá Hreyfli-Bæjarleiðum söfnuðu alls 6,3 milljónum króna til styrktar átaki Krabbameinsfélags Íslands gegn brjóstakrabbameini. Leigubílarnir keyrðu undir bleikum ljósum í október og nóvember og seldu bleikar slaufur auk þess sem að hluti hvers fargjalds rann til átaksins.
 
„Samtakamátturinn hefur alltaf verið mikill hjá Hreyfli eins og sést vel í þessu  átaki," segir Sæmundur Kristján Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri Hreyfils, í tilkynningu. „Hjá okkur starfa 370 bílstjórar og það var mjög góð, almenn þátttaka hjá bílstjórunum."
 
Þetta er í annað sinn sem Hreyfill tekur þátt í söfnunarátaki gegn brjóstakrabbameini, og safnaðist enn meir en í fyrra, þrátt fyrir að söfnunin hafi lent í miðri kreppunni. „Við seldum bleikar slaufur fyrir 4.990.000 krónur, eða alls 4.990 slaufur, og síðan söfnuðust rúmlega 1.300.000 krónur í pöntuðu fargjaldi. Það eru því tæpar 6,3 milljónir sem söfnuðust í heildina."
 
 Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélagi Íslands segir í tilkynningu að  markmiðum sem Krabbameinsfélagið hafi sett sér hafi náðst og þar með tekist að fjármagna nýjan greiningarbúnað að fullu, en með honum er hægt að framkvæma mun nákvæmari greiningu en áður og auðvelda leit í þéttum brjóstvef og brjóstum yngri kvenna. „Það verður því auðveldara að greina krabbamein á frumstigi en áður," segir Guðrún.
 
Í dag eru um 90% þeirra kvenna sem greinst hafa með brjóstakrabbamein á Íslandi enn á lífi 5 árum eftir greiningu og það er einn besti árangur í heimi.

„Ein af hverjum tíu konum greinist með brjóstakrabbamein einhvern tíma á ævinni og því er til mikils að vinna, en við gerum ráð fyrir að allar konur á aldrinum 40-69 ára komi til okkar í myndatöku á tveggja ára fresti, þó að eldri konur séu að sjálfsögðu einnig boðnar velkomnar í leitina. Árangur okkar hér á Íslandi er til fyrirmyndar og við viljum halda honum svo," segir Guðrún Agnarsdóttir og bætir því við að í nýju tækjunum sé léttari pressa lögð á brjóstið en var í þeim gömlu og því sé um minni óþægindi að ræða fyrir konurnar.

Bleika slaufan 2008
Bleika slaufan 2008
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert