„Leigan var um 77 þúsund þegar við fluttum þarna inn, svo hækkaði hún um 15% í fyrra sem var ansi mikið en hefur svo haldið áfram að hækka um þúsundkall og þúsundkall síðan og fer bara að verða dýrasta leiga á höfuðborgarsvæðinu held ég,“ segir Eggert Ragnarsson sem leigir stúdentaíbúð í Grafarholti af Byggingafélagi námsmanna.
Íbúðin, sem er 50,1 m² stór, kostar Eggert og konu hans, Amöndu Tyahur, nú 92 þúsund krónur á mánuði án rafmagns, og nálgast leiguverðið því að vera um 2.000 kr. á fermetrann. Það er í nokkru ósamræmi við almennt leiguverð sem hefur farið lækkandi eftir að hafa verið í hæstu hæðum síðustu ár, en ástæðuna er að finna í vísitölutengingu leigunnar. Íbúðir á almennum markaði hafa vart verið samkeppnishæfar við stúdentaíbúðir, sem fram að þessu hafa verið hagstæðasti kosturinn, en það gæti nú verið að breytast. Hræringar hafa verið á leigumarkaði undanfarið, framboð af húsnæði hefur aukist mjög enda hefur mikið verið byggt en jafnframt dregið úr fasteignaviðskiptum.
Samkvæmt upplýsingum frá Húseigendafélaginu hefur leiguverð á höfuðborgarsvæðinu lækkað að meðaltali um 20-30% frá síðastliðnu sumri. Húseigendur grípa í auknum mæli til þess ráðs að aðskilja leiguna frá neysluvísitölunni til að halda í góða leigjendur þrátt fyrir að hagnaður standi ekki undir láninu, frekar en að láta húsnæðið standa autt.
Sjálfum bauðst Eggerti nýlega stærri íbúð, 80 m², sem er mun nær skólanum og á lægra leiguverði, 80 þúsund kr. á mánuði. Íbúðin hentar þeim hjónum því í alla staði betur en þau sjá sér ekki fært að flytja. „Uppsagnarfresturinn á íbúðinni er þrír mánuðir frá mánaðamótum, svo að ef ég segi honum upp núna tekur það ekki gildi fyrr en í febrúar og ég gæti ekki flutt út fyrr en í maí.“
Þau þyrftu því að greiða tvöfalda leigu í hátt í 4 mánuði sem þau ráða ekki við. „Þannig að við þurfum bara að búa þarna áfram,“ segir Eggert. Hann segist hins vegar fullviss um að haldi verð á stúdentaíbúðunum, áfram að þróast í öfuga átt við leiguverð á almennum markaði verði óumflýjanlega brottflutningur þaðan.