Brynhildur fékk bjartsýnisverðlaun

Brynhildur Guðjónsdóttir.
Brynhildur Guðjónsdóttir. mbl.is/Jim Smart

Brynhildur Guðjónsdóttir, leikkona og leikskáld, hlaut í dag Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2008. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti verðlaunin í dag, áletraðan verðlaunagrip úr áli og verðlaunafé að upphæð 1 milljón króna.

Dómnefnd verðlaunanna skipa Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, sem er formaður nefndarinnar, Rannveig Rist, Sveinn Einarsson og Örnólfur Thorsson.

Brynhildur Guðjónsdóttir lauk leiklistarnámi frá Guildhall School of Music and Drama í London vorið 1998. Áður hafði hún útskrifast með BA gráðu í frönsku frá Háskóla Íslands. Hún hlaut fastráðningu hjá Þjóðleikhúsinu árið 1999 og hefur leikið þar fjölmörg hlutverk. Hún var tilefnd til Grímuverðlauna 2004 fyrir ýmis hlutverk sín í Þetta er allt að koma og hlaut Grímuna sem besta leikkona í aðalhlutverki 2004 fyrir túlkun sína á Edith Piaf. Hún hlaut Grímuna 2006 sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir hlutverk Sólveigar í Pétri Gaut, og tvenn Grímuverðlaun 2008 fyrir einleikinn Brák, það er sem leikskáld ársins og leikkona ársins í aðalhlutverki.

Brynhildur skrifar og leikur aðalhlutverkið í verkinu Frida ... viva la vida, sem byggt er á ævi mexíkósku listakonunnar Fridu Kahlo og verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í vor.

Íslensku bjartsýnisverðlaunin voru fyrst afhent árið 1981 og voru þá kennd við upphafsmann sinn, danska athafnamanninn Peter Bröste. Þegar hann dró sig í hlé skoraði hann á íslensk fyrirtæki að halda verðlaununum við og hefur Alcan á Íslandi hf. verið bakhjarl þeirra frá árinu 2000. Forseti Íslands hefur verið verndari þeirra frá upphafi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert