Fjárfestingarfélagið Kjalar, sem er að 94 prósentum í eigu Ólafs Ólafssonar, hyggst krefjast þess að fá greiddan út framvirkan gjaldeyrissamning úr gamla Kaupþingi á viðmiðunargengi krónunnar hjá evrópska seðlabankanum. Evran jafngildir 290 krónum samkvæmt gengi evrópska seðlabankans en hjá Seðlabanka Íslands er evran 166 krónur.
Kaupþing, sem mótaðili í samningum Kjalars, átti að greiða félaginu 650 milljónir evra, rúmlega hundrað milljarða króna, 14. október samkvæmt samningi þeirra á milli. Miðað við gengi evrópska seðlabankans nemur upphæð samningsins tæplega 190 milljörðum króna. Samningurinn var ekki gerður upp þar sem skilanefnd Fjármálaeftirlitsins (FME) tók yfir Kaupþing 9. október eftir að stjórn bankans óskaði eftir því við FME. Fulltrúar frá Kjalari hafa fundað reglulega með skilanefnd Kaupþings frá því nefndin tók yfir bankann. Félagið hefur óskað eftir skuldajöfnun, það er að skuld félagsins fari upp í kröfu þess.
Samkvæmt upplýsingum frá Kristni Hallgrímssyni, hæstaréttarlögmanni og stjórnarmanni í Kjalari, er krafa félagsins mörgum tugum milljarða hærri en skuldir félagsins við bankann. Samningurinn var upphaflega gerður um áramótin 2007/2008. Hann var í gildi til skamms tíma í senn, viku eða tvær vikur, en síðan endurnýjaður yfir árið. Samningnum var ætlað að verjast gengissveiflum þar sem lán félagsins eru að nánast öllu leyti í erlendri mynt. Kristinn segir Kjalar ætla að halda því til streitu að gera samninginn upp á gengi evrópska seðlabankans. Félagið getur ekki lögsótt skilanefndina næstu tvö árin, samkvæmt neyðarlögum, en hyggst ekki borga skuld við Kaupþing og verjast svo kröfu frá skilanefndinni.