Erla Björk Örnólfsdóttir er Vestlendingur ársins 2008

Erla Björk Örnólfsdóttir
Erla Björk Örnólfsdóttir


Erla Björk Örnólfsdóttir, forstöðumaður Varar - Sjávarrannsóknarseturs við Breiðafjörð er Vestlendingur ársins 2008. Að vanda var það Skessuhorn – fréttaveita Vesturlands, sem gekkst fyrir valinu á þeim einstaklingi sem þykir hafa skarað framúr öðrum á árinu sem leið. Þetta er í ellefta skipti sem slík útnefning fer fram. Fjöldi tilnefninga barst að þessu sinni og fengu alls 29 einstaklingar á Vesturlandi atkvæði, að því er segir í tilkynningu.

Í rökstuðningi dómnefndar með vali á Vestlendingi ársins segir: „Erla Björk var fyrsti starfsmaður Varar, sjávarrannsóknarseturs á Snæfellsnesi sumarið 2006. Síðan hefur hún aflað starfseminni fjár með vandaðri styrkumsóknagerð og uppskorið ríkulega þannig að nú eru fimm manns starfandi auk hennar við rannsóknir á lífríki Breiðafjarðar. Erla Björk hefur unnið frábært brautryðjendastarf og staðið fyrir mörgum áhugaverðum verkefnum. Þá hefur hún miðlað vísindastarfi Varar inn í skóla og aukið þannig áhuga ungs fólks fyrir lífríkinu umhverfis landið. Loks hefur hún hlotið mikla athygli fyrir starf sitt bæði á Snæfellsnesi sem og víðar.”

Næstir Erlu Björk í valinu voru í stafrófsröð: Anna Lára Steindal, hjá RKÍ á Akranesi, Kjartan Ragnarsson forstöðumaður Landnámssetursins í Borgarnesi, Sveinn Arnar Sæmundsson organisti og kórstjóri á Akranesi og fíkniefnaleitarhundurinn Tíri í Borgarnesi fyrir frábæran árangur í starfi, samkvæmt tilkynningu frá Skessuhorni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert