Hálkan á Hellisheiði: Skýrar veðurfarslegar vísbendingar

Frá slysstað við skíðaskálann í Hveradölum
Frá slysstað við skíðaskálann í Hveradölum mbl.is

„Það er gaman að velta upp kenningum, en sl. sunnudag voru hins vegar afar skýrar veðurfarslegar vísbendingar þeirrar hálku sem þá gerði,“ skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á bloggsíðu sinni.

Sunnudaginn 4. janúar sl. urðu að minnsta kosti fimm umferðaróhöpp á Hellisheiði og í Þrengslum í kjölfar þess þegar hálka myndaðist nokkuð óvænt um leið og þokunni létti. Vangaveltur hafa verið um að gufa frá Hellisheiðarvirkjun kunni að hafa átt þátt í hálkumynduninni.

Einar Sveinbjörnsson hefur m.a. þann starfa að spá daglega í veðrið fyrir Vegagerðina og meta m.a. veðuraðstæður sem leitt geta til hálku, blindu, ofankomu, snarpra vindhviða eða annað veðurtengt sem leitt getur til versnandi akstursskilyrða.

Strax þetta umrædda kvöld leitaði ég veðurfarslegra ástæðna fyrir þessari hálku, sem var nokkuð óvænt, mitt í miðjum hlýindunum. Snemma að morgni 5. janúar setti ég þá vitneskju sem ég hafði aflað á blað og sendi til þjónustudeildar Vegagerðarinnar, þeim til upplýsingar og hvaða lærdóm mætti af þessum atburði draga. Í hádegisfréttum RÚV var síðan farið að tala um gufu frá Hellisheiðarvirkjun sem mögulegan þátt í hálkumynduninni. Úr hefur síðan spunnist talsverð umræða hjá RÚV,“ segir Einar Sveinbjörnsson á síðu sinni.

Minnisblaðið til Vegagerðarinnar, sem Einar nefnir, var birt í heild sinni á vefritinu Smugunni en í minnisblaði Einars segir m.a.:

„Eins og fram kom í viðtali við vertinn í Litlu-Kaffistofunni þá getur jarðgufan hæglega átt þátt ísmyndun á vegyfirborði við ákveðnar veðuraðstæður. Sjálfur tók ég þátt í að spá dálítið í gufustrókinn frá Hellisheiðarvirkjun fyrr í vetur og þá vegna tengivirkis Landsnets þar skammt frá. Með aðstoð Orkuveitu Reykjavíkur var mælt innihald brennisteinsvetnis, en það snefilefni gefur ágætlega til kynna hlut jarðgufunnar og þar með þátt hennar í raka í andrúmsloftinu.

Gufustrókurinn leitar til lofts þegar vindur er hægur og þynnist fljótt út, eins og meðfylgjandi mynd sýnir vel sem ég tók í góðu veðri snemma í vetur (NV 1-2 m/s). Hins vegar gerist það við ákveðinn vindstyrk, um 8-10 m/s að vindurinn keyrir gufuna til jarðar og þá fylgir hún yfirborði í geira nokkurn spöl frá upptökunum. Hvað Suðurlandsveginn áhrærir má ímynda sér að gufuna geti borist yfir veginn frá stöðvarhúsi samfara strekkings N-átt.  Mögulega ætti gufan þá þátt í hálkumyndun á stuttum kafla þar sem hana ber yfir.  Ekki er heldur hægt að útiloka að í hægum vindi og tiltölulega röku lofti geti jarðgufa flýtt fyrir mettun og þar með hélumyndun á vegi (sé frost).

Allt eru þetta vangaveltur sem fæst ekki úr skorið nema með rannsóknum, t.d. veðurgreiningum, mælingum t.d. á brennisteinsvetni (sem segir til um uppruna loftsins og styrk jarðgufu í rakanum) og sýnatöku íss á veginum, þar sem leitað er spora jarðgufu á sama hátt.  Eins viðnámsmælingum á þar til gerðum bíl sem Vegagerðin notar í vetrarþjónustu sinni,“ segir í minnisblaði Einars til Vegagerðarinnar.

Síða Einars Sveinbjörnssonar

Hellisheiðarvirkjun
Hellisheiðarvirkjun Mynd Einar Sveinbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert