Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra er að kynna umfangsmiklar skipulagsbreytingar á heilbrigðisþjónustu í landinu, á fundi með fréttamönnum. Eiga breytingarnar að taka gildi 1. mars nk. Meðal helstu breytinga er að St. Jósefsspítala í Hafnarfirði verður falið hlutverk á sviði öldrunarlækninga og hvíldarinnlagna.
Sérfræðingum og fagfólki, sem þar hafa gert skurðaraðgerðir, verður boðin aðild að því að byggja upp skurðstofurekstur í nýrri aðstöðu á Suðurnesjum. Meltingasjúkdóma- og lyflækningadeild verður tengd starfsemi á Landspítalanum og göngudeildarþjónusta á St. Jósefsspítala þróuð með sérfræðingum þaðan. Landspítalinn mun yfirtaka skurðstofurekstur á Selfossi og vaktir á skurðstofum á Selfossi og í Keflavík verða lagðar af.
Allar heilbrigðsstofnanir og heilsugæslustöðvar á Norðurlandi verða sameinaðar í eina undir forystu FSA á Akureyri, sem verður Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Allar heilbrigðisstofnanir á Vesturlandi verða sameinaðar undir eina, Heilbrigðisstofnun Suðurlands sameinuð stofnuninni í Eyjum, sem jafnframt tekur við samningum við Heilbrigðisstofnunina á Höfn.
Heilbrigðisstofnunin á Patreksfirði sameinast Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og auka á samstarf milli Heilbrigðisstofnunar Austurlands og FSA.