Langflestir þeirra, sem vilja að annar gjaldmiðill en krónan verði tekin upp hér á landi, vilja að tekin verði upp evra hér á landi. Þetta kemur fram í niðurstöðum skoðanakönnunar sem Capacent Gallup vann fyrir óformlegan hóp áhugamanna um stjórn peningamála. Þá segjast 56,4% þátttakenda í könnuninni vera hlynntir einhliða upptöku alþjóðlegrar myntar hér á landi.
Samkvæmt upplýsingum Birgis Tjörva Péturssonar, fulltrúa hópsins, sögðust 21,6% aðspurðra andvígir því að tekin verði einhliða upp erlend mynt á Íslandi í stað krónunnar en 22% sögðust hvorki vera hlynntir né andvígir því.
Af þeim sem segjast vilja einhliða upptöku erlends gjaldmiðils segjast 70,3% vilja að tekin verði upp evra hér á landi, 25,7% segjast vilja Bandaríkjadollar, 14,1% segjast vilja norska krónu og 3,9% segjast vilja annað en þá þrjá svarmöguleika sem gefnir voru í spurningunni. Tekið skal fram að í spurningunni var þátttakendum gefinn kostur á að velja fleiri en einn gjaldmiðil.
Einnig var spurt hvenær, þeir sem vilja að tekin verði upp önnur mynt en króna, vilji að það verði gert. 68,9% þeirra sögðust vilja að það yrði gert á næstu 6 mánuðum og 16,4% sögðust vilja að það yrði gert á næstu 7-12 mánuðum.