Mikil óánægja er meðal starfsfólks St. Jósefsspítala vegna væntanlegra breytinga á spítalanum. En samkvæmt heimildum Mbl telja menn að með breytingunum sé eingöngu um tilfærslu á vanda að ræða, ekki lausn.
Fjölmargar aðgerðir eru nú þegar framkvæmdar á St. Jósefsspítala á ári hverju, enda sé spítalinn skilvirk stofnun sem hafi þróað starfsemi sína með skýrum markmiðum í marga áratugi. Áhersla hafi verið lögð á vissar sérgreinar sl. ár og stærstar þeirra séu meltingarsjúkdómar og kvensjúkdómar. Spítalinn þjóni nú læknum og sjúklingum þeirra alls staðar af landinu vegna þessarar sérhæfingar.
Langir biðlistar séu nú þegar eftir ýmsum þeim aðgerðum sem framkvæmdar séu á St. Jósefs. Búast megi við að þeir listar lengist enn frekar við breytingar á starfsemi spítalans.
Í yfirliti yfir starfsemi handlækningadeildar kemur fram að í fyrra hafi verið gerðar 2.618 aðgerðir á St. Jósefs, þar af 639 kvensjúkdómaaðgerðir, auk þess sem skipt var um 877 augasteina.
Á árinu 2008 voru þá gerðar 3.043 speglanir og 4.260 rannsóknir sem tengdust meltingarsjúkdómum við spítalann. En í reglulegu eftirliti á vegum meltingarsjúkdómadeildar spítalans eru 3.700 sjúklingar vegna vélinda-, þarmabólgu-og sepavandamála.
Á árinu 2008 tókst framkvæmdastjórn, í góðu samstarfi við starfsmenn, að hafa stjórn á fjármálalegum rekstri, en jafnframt auka afköst í læknisverkum. Fyrstu 9 mánuði ársins 2008 var fjármálaleg rekstrarstaða spítalans jákvæð um 10 milljónir króna.