Magnús Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, ætlar ekki að gefa kost á sér til formennsku í flokknum. Þetta staðfesti Magnús í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í dag.
Þar með þykir líklegt að Höskuldur Þórhallsson verði eini frambjóðandinn úr röðum þingmanna. Valgerður Sverrisdóttir núverandi formaður gefur ekki kost á sér til áframhaldandi kjörs, en Siv Friðleifsdóttir og Birkir Jón Jónsson bjóða sig fram til varaformanns.
Aðrir frambjóðendur sem fram hafa komið, auk Höskuldar, eru Lúðvík Gizurarson hrl., Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skipulagshagfræðingur, Jón Vigfús Guðjónsson sjómaður og Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi.