Níu ára bið eftir lóð undir mosku

Moska í Tyrklandi.
Moska í Tyrklandi. Reuters

Enn hefur Félag múslima á Íslandi ekki fengið lóð úthlutaða frá Reykjavíkurborg undir mosku (bænahús), þrátt fyrir að hafa farið þess á leit við borgina síðustu níu árin, eða síðan árið 2000. „Við erum tilbúin að skoða lóðir hvar sem er, en höfum ekki fengið neitt enn,“ segir Salmann Tamimi.

Undanfarin misseri hefur umsókn félagsins verið nokkuð vandmeðfarin þar sem hún gerði ráð fyrir háum turni og allmiklu byggingarmagni. Nú hefur hins vegar verið slegið talsvert af þeim kröfum og því ætti að vera auðveldara um vik að finna lóð þar sem moskan fellur vel að umhverfinu.

Aðspurður segir Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður skipulagsráðs borgarinnar, að nýlega hafi verið fundað með Salmann Tamimi. „Við fórum munnlega yfir þarfir og óskir félagsins. Ég sagði þeim frá því að við myndum verða við erindi þeirra þegar hægt yrði að finna stað sem hentaði þeim og gengi upp í umhverfinu.“

Hins vegar bað Júlíus Vífill líka um það á fundinum að skýrt yrði út og gerð grein fyrir athugasemdum sem komið hefðu frá öðrum í sama trúfélagi, þar sem bornar væru brigður á að Salmann væri talsmaður múslima á Íslandi.

„Því er haldið fram að formennskan í félaginu sé ekki í höndum hans,“ segir Júlíus. Formlegar athugasemdir þess efnis hafa borist mannréttindastjóra borgarinnar og því þarf að sannreyna hver hefur umboð til að tala fyrir hönd félagsins áður en lengra er haldið, að sögn Júlíusar Vífils. Erfitt sé að undirbúa úthlutun ef ekki sé eining í félaginu um þann gerning. Að öðru leyti séu ekki sérstök vandkvæði á að málið fái framgang.

Salmann Tamimi kannaðist við þessar athugasemdir þegar þær voru bornar undir hann, en kvaðst þó vera réttkjörinn formaður Félags múslima á Íslandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert