Sveinn Sveinbjörnsson, leiðangursstjóri Hafrannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar, segir að fiskiskipin Faxi RE, Lundey NS og Börkur NK hafi öll fundið loðnu við landið norðaustanvert.
Hann segir í samtali við mbl.is að Lundey og Börkur hafi fundið loðnu á svæði sem hafi verið „í beinu framhaldi af því sem Faxi hafði fundið
suðaustast á sínu leitarsvæði. Þannig að þetta er samfellt þarna á
þessu leitarsvæði og vestur um. Sennilega allavega að
Kolbeinseyjarhrygg, eða þar um bil.“
Sveinn segir að loðnugangan sé á sömu slóðum og hafi verið í fyrra á sama árstíma. „Nú er bara að vona að það hafi bæst eitthvað við þá mælingu [sem var gerð á síðasta ári]. Við þurfum meira heldur en við mældum þá til að starta vertíðinni,“ segir Sveinn.
Árni Friðriksson, sem hefur leitað við suðurströnd landsins, siglir nú í áttina að loðnuskipinu Faxa RE 9 sem fann í gær fyrstu torfuna norðaustur af Langanesi. Engin loðna hefur fundist við suðurströnd landsins líkt og búist var við.
Skipin fjögur hófu loðnuleit við landið 4. janúar sl. Börkur NK, sem leitaði við landið austanvert, fann loðnu nyrst á sínu leitarsvæði. Það hefur nú lokið leit og hefur snúið til hafnar.
Sveinn segir að Lundey NS, sem hefur verið við leit um landið norðanvert, sé komin austast á sitt leitarsvæði. „Hún hefur komist í loðnu líka,“ segir hann.
Hann segir að verið sé að skoða það að breyta leitarlínum Lundeyjar og Faxa, og þétta þannig leitina. Skipin ættu að öllum líkindum að ljúka sinni leit á morgun.
Unnið er að mælingum á svæðinu en ekki hafa fengist neinar niðurstöður. Talsverð vinna fari í að túlka gögnin sía út truflanir sem verða á tækjabúnaðinum.
Þetta er í fyrsta sinn sem búnaður er um borð í öllum skipunum sem hefur verið kvarðaður í samræmi við búnað rannsóknaskipsins þannig að samvörun sé á milli mælinga. Því nýtast skipin sem væru þau rannsóknaskip og niðurstöður athugana frá þeim geta nýst beint í mat á stærð loðnustofnsins. Gögnunum sem safnað er frá leitarskipunum eru flutt um gervitungl og unnið úr þeim á Hafrannsóknastofnuninni.