Óvíst að MDE taki við kæru

Hús Mannréttindadómstólsins í Strassborg.
Hús Mannréttindadómstólsins í Strassborg. mbl.is/GSH

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að höfða ekki mál gegn breskum stjórnvöldum fyrir breskum dómstólum „á þessu stigi“ vegna beitingar hryðjuverkalaganna gegn Landsbankanum í október sl. Hins vegar ákvað ríkisstjórnin að kanna til þrautar möguleika á að leita réttar Íslendinga fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu í Strassborg.

Bresku lögmennirnir sem ríkisstjórnin fékk til að leggja mat á hvort hægt væri að hnekkja kyrrsetningu eigna Landsbankans fyrir breskum dómstólum og hvort ríkið gæti höfðað skaðabótamál vegna aðgerða breskra stjórnvalda, töldu litlar sem engar líkur á því. Þá væru engar líkur á að íslenska ríkið fengi dæmdar skaðabætur fyrir breskum dómstólum vegna þessa.

Þverrandi líkur virðast einnig á að skilanefnd Landsbankans höfði mál gegn breskum stjórnvöldum í Bretlandi ef marka má ummæli forsætisráðherra í gær og álit lögfræðinga sem stjórnvöld leituðu til. En ríkisstjórnin ætlar þó að styðja Landsbankann ef til málaferla kemur og styðja „af alefli“ málsókn skilanefndar Kaupþings vegna framgöngu breska Fjármálaeftirlitsins gegn Singer & Friedlander eins og fram kom á mándudag.

Óþarft að stefna samningaviðræðum um Icesave í hættu

Á minnisblaði ríkislögmanns frá 22. desember er bent á að samningaviðræður eru í gangi vegna Icesave-reikninganna. „Aðilar innan íslenska ráðgjafahópsins hafa áhyggjur af því að málaferli fyrir breskum dómstólum geti skaðað íslenska hagsmuni vegna samninga um uppgjör þessara reikninga,“ segir á minnisblaðinu. „Ríkislögmaður telur að sýnt hafi verið fram á með fullnægjandi rökum að dómstólaleiðir fyrir breskum dómstólum þjóni ekki hagsmunum íslenska ríkisins. Litlar sem engar líkur séu til þess að íslenska ríkið nái þeim markmiðum sem upphaflega var að stefnt. Sömu sjónarmið eiga við um skilanefnd Landsbankans, sbr. ráðgjöf bresku lögmannanna. Í ljósi þessa er óþarft, ef ekki óskynsamlegt, að stefna samningaviðræðum um Icesave-reikningana í hættu vegna málaferla sem fyrirfram eru talin vonlítil,“ segir ríkislögmaður.

Uppfylla þarf skilyrði

Ríki geta borið fram kæru fyrir Mannréttindadómstól Evrópu á hendur öðru aðildarríki Mannréttindasáttmála Evrópu á grundvelli 33. greinar sáttmálans, og haldið því fram að réttindi einstaklinga eða lögaðila hafi verið brotin, segir Björg Thorarensen prófessor við lagadeild HÍ.

„Uppfylla þarf ákveðin skilyrði til að mál fari fyrir Mannréttindadómstólinn, hvort sem um kærur einstaklinga eða ríkja er að ræða. Aðalskilyrðið er að úrræði innanlands hafi verið tæmd og reynt hafi verið að leita leiðréttingar fyrir dómstólum í því ríki, sem haldið er fram að hafi brotið ákvæði sáttmálans,“ segir hún.

Björg er þeirrar skoðunar að fyrst væri rétt að fá skorið úr um lögmæti kyrrsetningar eigna Landsbankans fyrir breskum dómstólum þegar litið er til þess að um mjög afmarkað tilvik er að ræða og miklir hagsmunir bankans voru skertir með aðgerðum breskra yfirvalda. Hún tekur þó fram að hún hafi ekki allar upplýsingar um hvort það sé viðtekin venja að beita lögunum með þessum hætti.

„Ég hefði talið nærtækast að Landsbankinn höfðaði mál fyrir breskum dómstólum og byggði málareksturinn á ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu sem gilda í Bretlandi og þá fyrst og fremst ákvæðinu um skerðingu á eignarrétti. Það verður að vera lagaheimild fyrir takmörkunum sem settar eru á eignarrétt. Þarna eru settar það miklar takmarkanir á eignarréttinn á grundvelli óljósrar lagaheimildar og yrðu breskir dómstólar að skera úr um það á grundvelli Mannréttindasáttmálans. Fallist þeir ekki á að brot hafi verið framið getur hvort heldur Landsbankinn eða íslenska ríkið skotið málinu til Mannréttindadómstólsins,“ segir Björg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert