Stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar hefur sent frá sér ályktun þar sem fordæmd er innrás Ísraelshers á Gazasvæðið. Segir þar að loftárásir og innrás hersins bitni helst á íbúum svæðisins, sem þegar búi við kröpp kjör og ekkert réttlæti ofbeldi gegn saklausum borgurum; konum, börnum og öldruðum.
„Viðvarandi skortur á mat, vatni, rafmagni, lyfjum og öðrum nauðsynjum hefur verið á svæðinu svo mánuðum skiptir. Sjúkrahús eru illa í stakk búin til að sinna sjúkum og særðum. Stöðugar árásir Ísraelshers og bardagar við palestínska skæruliða gera hjálparsamtökum það nánast ómögulegt að koma hjálpargögnum til íbúa Gaza.
Stjórn kvennahreyfingar Samfylkingarinnar tekur undir með Friðarráði ísraelskra og palestínskra kvenna og krefst þess að árásum Íraelshers á Gaza verði hætt án tafar," segir síðan.