Þingflokkur Vinstri grænna segir að ríkisstjórnin hafi brugðist þeirri skyldu sinni að gæta þjóðarhagsmuna á fullnægjandi hátt með því að nýta ekki möguleika til málshöfðunar fyrir breskum dómstólum til að rétta hlut Íslendinga.
„Þingflokkur Vinstri grænna lýsir fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni vegna alvarlegra og dýrkeyptra mistaka við meðferð Icesave-deilunnar, bæði í aðdraganda og síðar úrvinnslu málsins. Kaflaskil eru í málinu kl. 16 í dag þegar frestur rennur út til að kæra þá ákvörðun breska fjármálaráðuneytisins að beita hryðjuverkalögum til að frysta íslenskar eignir í Bretlandi," segir í tilkynningu flokksins.
„Í stað þess að segja þjóðinni heiðarlega og rétt frá því að í dag rennur endanlega út fresturinn til að kæra til dómstóla hina upphaflegu ákvörðun um að beita Íslendinga hryðjuverkalögum drepur ríkisstjórnin málinu á dreif með því að blanda saman óskyldum hlutum. Annars vegar er um að ræða þá ákvörðun breska fjármálaráðuneytisins að frysta eignir Landsbankans á grundvelli hryðjuverkalaga; þá ákvörðun hefði annaðhvort eða bæði ríkið og Landsbankinn þurft að kæra fyrir klukkan 16 í dag.
Hins vegar er um ræða yfirtöku breska fjármálaeftirlitsins á dótturfélagi Kaupþings í Bretlandi, breska bankanum Singer & Friedlander. Það að fara nú að tala um að reyna að koma málinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg er ömurlegur fyrirsláttur og beinlínis óheiðarlegt að reyna að láta líta svo út að það komi í staðinn fyrir málshöfðun nú. Þegar hafa sérfræðingar sagt að líklegt sé að Mannréttindadómstóllinn vísi slíku máli frá þar sem ekki var látið reyna áður til fulls á réttarúrræði í viðkomandi landi, þ.e.a.s. í Bretlandi.
Með því að falla fyrst frá því að fá úr því skorið hver raunveruleg ábyrgð Íslands er og nú með því að heykjast á því að annaðhvort ríkið eða Landsbankinn, eða báðir aðilar, höfði mál vegna ákvörðunar breska fjármálaráðuneytisins að beita hryðjuverkalögum á Íslendinga, hefur ríkisstjórnin í reynd afsalað Íslendingum öllum lagalegum og réttarfarslegum möguleikum í málinu. Þess í stað á nú að skuldsetja íslenska skattgreiðendur og komandi kynslóðir svo nemur óheyrilegum fjárhæðum á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála. Niðurstaðan er að ríkisstjórnin hefur enn einu sinni brugðist, og það er að reynast þjóðinni dýrkeypt – þjóðinni sem mun þurfa að bera byrðarnar af mistökum og aðgerðarleysi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar," segir m.a. í yfirlýsingu þingflokksins.