Sólin styður Græna netið

Framkvæmdir í Helguvík.
Framkvæmdir í Helguvík. mbl.is/RAX

Sól á Suðurlandi lýsir fullum stuðningi við afstöðu Græna Netsins
vegna áforma stjórnvalda um ríkisstyrk til stóriðju í Helguvík. Í yfirlýsingu Sólar á Suðurlandi segir að mikilvægt sé að allt atvinnulífið, almenningur og umhverfið njóti sanngirni og réttlætis við uppbyggingu efnahags og atvinnulífs á Íslandi.

Í yfirlýsingunni segir að loforð um ríkisstyrk til að keyra í gegn áform vegna umdeildrar stóriðju hafi áhrif langt út fyrir svæði sem njóta á vildarkjara ríkisstjórnarinnar á vafasömum forsendum. Mikilvægt sé að mismuna hvorki atvinnugreinum né misbjóða lýðræðinu þegar erfiðleikar steðja að. Boðuð störf séu fuglar í skógi.

Þá segir að allt sé óljóst og ófrágengið hvað varðar útblástursheimildir, orkuöflun, dreifingu vinnuafls og fjölda starfa. Upplýsingar þar um séu hvergi á borðinu.

Sól á Suðurlandi skorar á ríkisstjórnina að leggja öll spilin á  borðið og standa við fyrri stefnu sína, sem hét Fagra Ísland. 
 
„Össur Skarphéðinsson fær prik frá Sól á Suðurlandi, fyrir að staðfesta að virkjun neðri Þjórsár sé ekki undir vegna Helguvíkur og að það býr fólk við Þjórsá sem Landsvirkjun hefur ekki samið við. Sól á Suðurlandi telur að risaálver í Helguvík þurrki upp mestalla þá orku sem hægt verður að kreista fram á suðvesturhluta landsins. Sólin óttast að Þjórsá fari þá  í stækkun í Straumsvík, þrátt fyrir alla andstöðuna. Orkan fari öll í álið,“ segir í yfirlýsingu Sólar á Suðurlandi.

Þá segir að það hljóti að teljast vafasamt á tímum sem þessum að fórna svo miklu fyrir álverin meðan álverð lækkar og önnur tækifæri taka við. Áætlanir um álver sem helstu bjargráð heilla landshluta hafi ekki reynst
heilladrjúg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka