Samkvæmt breytingum heilbrigðisráðherra, sem kynntar voru í dag, munu heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar á Norðurlandi sameinast nýrri stofnun á Akreyri, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, sem byggjast mun á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, FSA.
Halldór Jónsson, forstjóri FSA, segir Norðurland vissulega vera stórt heilbrigðisumdæmi og samlegðaráhrifin verði mismikil. „Að mínu mati eru möguleikarnir fyrir hendi innan hluta af svæðinu og milli ákveðinna staða. Við hljótum að eiga að líta jákvætt á þetta verkefni, þegar það verður sett í gang. Jafnframt þurfum við að átta okkur á því sem kann að verða neikvætt eða erfitt viðureignar og hvernig við bregðumst við því. Ég trúi að í þessu séu möguleikar sem geti bætt og styrkt þjónustuna á svæðinu, sérstaklega til lengri tíma. Núna búum við við þrengingar sem setja okkur vissulega takmörk,“ segir Halldór.
Aðspurður reiknar hann með að einhverjar aðgerðir verði fluttar til Akureyrar í meira mæli, sem og fæðingar frá stöðum eins og Sauðárkróki sem hefur haft fæðingardeild starfandi. Þetta eigi eftir að koma betur í ljós, en tryggja þurfi gæði og öryggi þjónustunnar sem veitt verður.
Stjórnendum mun fækka
„Nýtt skipurit verður til með nýrri stofnun. Það kom vel fram í máli heilbrigðisráðherrra á kynningunni í dag að fyrirfram sjá menn fyrir sér að fækkun og breyting verður á stjórnendaliði heilbrigðisstofnana á þessu svæði. Verkefni og stöður breytast og það verður að koma í ljós hvernig því verður best fyrir komið,“ segir Halldór Jónsson hjá FSA, sem var meðal þeirra stjórnenda heilbrigðisstofnana er sátu kynningarfund heilbrigðisráðherra með fjölmiðlum í dag.