Vinnubrögðin átalin

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra kynnti umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir í heilbrigðisþjónustunni í …
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra kynnti umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir í heilbrigðisþjónustunni í dag. mbl.is/Golli

Starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga átelja harðlega þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við kynningu og innleiðingu fyrirhugaðra breytinga á skipulagi heilbrigðisþjónustunnar, að því er segir í ályktun frá fundi starfsmannanna í dag.

Starfsmenn segjast undrast hinn mikla hraða. „Lítill tími er gefinn til samráðs þar sem vinnuhópar eiga að skila tillögum 19. janúar. Við teljum ámælisvert að fagleg rök fyrir sameiningunni koma ekki fram, skortur er á samráði og upplýsingagjöf þar sem fagaðilar og stjórnendur fengu ekkert að koma að gerð þessara tillagna.

Í ljósi fyrri reynslu af sameiningu heilbrigðisstofnana setjum við fram efasemdir um fjárhagslegan ávinning af fyrirhugaðri sameiningu á Norðurlandi. Um er að ræða gríðarlega stórt landsvæði, miklar vegalengdir og óáreiðanlegt veðurfar. Við höfum miklar áhyggjur af gæðum þjónustu og öryggi skjólstæðinga á okkar svæði. Við teljum að áform um að fækka sjúkradeildum og vaktsvæðum geti aukið kostnað fyrir sjúklinga og dregið úr öryggi þeirra.

Við leggjum mikla áherslu á að þeir vinnuhópar sem skipaðir verða til að vinna frekar að sameiningunni, hafi á að skipa fagfólki á sviði lækninga og hjúkrunar frá hverri stofnun fyrir sig. Ekki einungis fjármálasérfræðingum, enda vert að minnast þess að heilbrigðisþjónusta snýst fyrst og fremst um lækningar og hjúkrun.

Ef til fyrirhugaðrar sameiningar kemur teljum við mikilvægt að stjórn nýrrar stofnunar verði ekki skipuð núverandi stjórnendum einnar stofnunar, svo þeir séu ekki markaðir af sjónarmiðum þeirrar stofnunar frekar en annarra. Teljum við eðlilegt að slíkar stöður verði auglýstar ef til kemur.

Ef aukið vald verður flutt frá ráðuneyti til stofnana, líkt og fram kemur í tillögunum, spyrjum við hvort það þýði flutning starfa eða embætta frá ráðuneyti, Landlæknisembættinu eða öðrum sem hafa það hlutverk að sinna stjórnun og stefnumótun í heilbrigðiskerfinu, til stofnana úti á landi.

Á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga starfar áhugasamur og samstilltur hópur sem er tilbúinn að takast á við hvaða verkefni sem er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert