Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ segir mikilvægt að bærinn taki við allri heilbrigðisþjónustu í bænum. Að öðrum kosti gætu íbúar misst nauðsynlega þjónustu, til að mynda fæðingardeildina úr bænum. Róbert Wessman og fleiri eru enn inni í myndinni hvað varðar nýtingu á skurðstofum sjúkrahússins.
Bæjaráð Reykjanesbæjar hefur nú óskað eftir því að taka yfir heilbrigðisþjónustuna í bænum. Árni Sigfússon segir þetta gríðarlega mikilvægt til að tryggja örugga heilbrigðisþjónustu fyrir svæðið.
Hugmynd Heilbrigðisráðuneytisins er að nýta skurðstofur sjúkrahússins í Keflavík undir ferliverk fyrir fyrrverandi starfsfólk St Jósepsspítala og fleiri lækna. Bæjaryfirvöld vilja hinsvegar áframhaldandi þjónustu skurðlækna fyrir bæjarbúa og fá jafmframt tekjur af þjónustu við ferliverk. Þá eru uppi hugmyndir uppi um útselda heilbrigðisþjónustu til útlendinga. Eftir er að semja við Heilbrigðissráðuneytið.
Árni segist ekki eiga von á því að ráðuneytið fari að ausa fé í þetta svæði frekar en önnur. Hann segist telja að hægt sé að reka Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í formi sjálfseignastofnunar, jafnvel í samstarfi við Landspítalann. Þá væri hægt að reka skurðstofurnar í samstarfi við aðra og vonandi hafa af því einhverjar tekjur til að veita inn í almenna heilbrigðisþjónustu.
Það vakti athygli þegar þekktur auðmaður skoðaði skurðstofur sjúkrahússins í Keflavík. Árni staðfestir að Róbert Wessman sé inni í myndinni, hvað varðar skurðstofurnar og rekstur þeirra. Hann og eiginkona hans sem sé læknir hafi kynnt mjög áhugaverðar hugmyndir og framtíðarsýn varðandi þær, en bærinn vllji gjarnan samstarf við aðra, bæði lækna frá st. Jósepsspítala og líka Róbert Wessman eða aðra einstaklinga.