Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt konu á þrítugsaldri í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skjalafals og fjársvik. Henni var jafnframt gert að greiða Kreditkortum hf. tæpar 470 þúsund krónur og Bílaleigu Akureyrar ehf. rúmar 270 þúsund kr.
Konan sótti meðal annars um greiðslukort í nafni annarrar konu en með mynd af sér. Hún falsaði eyðublöð og fékk greiðslukortið útgefið fjórum dögum eftir útfyllingu umsóknar. Það var í janúar fyrir ári síðan. Í kjölfarið notaði hún kreditkortið óspart, sveik m.a. út vörur í raftækjaverslun fyrir 133 þúsund krónur.
Á tímabilinu 29. janúar til 20. febrúar sveik hún út vörur eða þjónustu í 32 skipti hjá fjölmörgum fyrirtækjum fyrir rúmar 260 þúsund krónur, m.a. 35 þúsund krónur hjá hársnyrtistofu og 18 þúsund hjá byggingavöruverslun. Einnig tók hún bifreið á leigu út á greiðslukortið.
Konan játaði brot sín skýlaust og var það metið henni til tekna, en einnig að hún hefur ekki áður komist í kast við lögin. Framkvæmd refsingar fellur niður haldi hún almennt skilorð næstu þrjú ár.