Endurskoða reglur um forsjá, búsetu og umgengni

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra.
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra. mbl.is/Frikki

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra hefur skipað nefnd til að fara yfir reglur barnalaga um forsjá barna, búsetu og umgengni. Nefndinni ber meðal annars að skoða hvort ástæða sé til að breyta íslenskri löggjöf og veita dómurum heimild til að ákveða að foreldrar skuli fara sameiginlega með forsjá barns þrátt fyrir að annað foreldri sé því andvígt.

Gildandi barnalög voru sett árið 2003 og hefur þeim verið breytt nokkrum sinnum frá gildistöku. Þýðingarmikil breyting var gerð árið 2006 þegar gert var að meginreglu að foreldrar fari sameiginlega með forsjá barns eftir skilnað og sambúðarslit. Samkvæmt gildandi rétti getur annað foreldri ávallt krafist niðurfellingar sameiginlegrar forsjár sem leiðir til þess að forsjá verður falin öðru foreldranna. Verði niðurstaða nefndarinnar sú að veita eigi dómurum heimild til að dæma sameiginlega forsjá skal nefndin taka afstöðu til þess við hvaða aðstæður það komi til álita. Verði lagt til að breyta barnalögunum í þá veru sem nefnt er hér að framan ber nefndinni að taka afstöðu til þess úr hvaða ágreiningsefnum foreldra dómari eigi að geta leyst með dómi þegar forsjá er sameiginleg og foreldrar komast ekki að samkomulagi.

Við endurskoðun laganna skal nefndin hafa að leiðarljósi að þarfir og hagsmunir barnsins eiga að vera í öndvegi við skipan mála samkvæmt barnalögum. Auk þess skal hafa hliðsjón af þeim alþjóðlegu samningum sem Ísland er aðili að og varða efnið, einkum Samningi sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Í ljósi hinnar ríku hefðar um norræna samvinnu á sviði sifjaréttar ber nefndinni einnig að gefa vandlega gaum að reglum annarra norrænna ríkja um forsjá, búsetu og umgengni og þróun þeirra.

Í nefndinni sitja Hrefna Friðriksdóttir lögfræðingur, lektor í sifja- og erfðarétti við Háskóla Íslands, sem er formaður nefndarinnar, Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari, tilnefnd af Dómarafélagi Íslands, og Álfheiður Steinþórsdóttir sálfræðingur, tilnefnd af Sálfræðingafélagi Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert