„Þetta er ekkert annað en enn ein aðförin að landsbyggðinni og skerðir þá þjónustu sem við, fólkið, þurfum á að halda,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður verkalýðsfélagsins Einingar - Iðju um skipulagsbreytingar í heilbrigðisþjónustunni. Björn segir óskiljanlegt að stjórnvöld ætli að kippa grunnstoðum undan sveitarfélögunum.
Björn Snæbjörnsson, formaður formaður verkalýðsfélagsins Einingar - Iðju þingaði í vikunni með framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Siglufjarðar, Konráði Karli Baldvinssyni, og félagsmönnum sem þar vinna. Fundinn sátu einnig Margrét Jónsdóttir, starfsmaður félagsins á Siglufirði, og trúnaðarmaður starfsmanna. Björn hafði óskað eftir þessum fundi vegna þess að taka á upp nýtt vaktafyrirkomulag vegna niðurskurðar sem þýðir um 10% minnkun á starfstíma.
„Konráð fór yfir stöðuna og útskýrði þann niðurskurð sem þá lá fyrir en enginn veit nú hver verður. Við erum að tala um einn stærsta vinnustaðinn á Siglufirði og í ljósi þess sem Konráð sagði er þessum störfum sem um ræðir, stefnt í voða. Það versta er að það veit enginn neitt. Óvissan meðal starfsmanna er óþolandi,“ segir Björn.
Hann segir að boðaðar breytingar í heilbrigðisþjónustunni komi til með að skaða sveitarfélögin.
„Við erum að tala um marga stóra vinnustaði víða um land og slíkur niðurskurður hlýtur að leiða til uppsagna starfsfólks. Þetta er ekkert annað en enn ein aðförin að landsbyggðinni og skerðir þá þjónustu sem við, fólkið, þurfum á að halda,“ segir Björn Snæbjörnsson.