Fordæma grimmdarverk á Gaza

AP

Samtök hernaðarandstæðinga, (SHA) fordæma grimmdarverk Ísraelshers á Gaza-svæðinu, sem heimurinn hefur orðið vitni að undanfarna daga. Í yfirlýsingu frá miðnefnd SHA segir að ljóst sé að aðgerðirnar hafi kallað ólýsanlegar þjáningar yfir íbúa svæðisins og þverbrjóti alþjóðalög og mannréttindasáttmála.

„Samtök hernaðarandstæðinga taka undir kröfu félagsins Íslands-Palestínu þess efnis að íslenska ríkisstjórnin slíti stjórnmálasamstarfi við Ísraelsríki vegna fjöldamorðanna,“ segir í yfirlýsingu miðnefndar SHA.

Ennfremru segir að Íslendingar beri sína ábyrgð á stöðu mála vegna aðildar landsins að hernaðarbandalaginu Nató. Á undanliðnum árum hafi Nató átt í margvíslegum hernaðarsamskiptum við Ísrael og á leiðtogafundi bandalagsins í Búkarest á síðasta ári hafi sérstaklega verið ályktað að þróa bæri tengsl Nató og Ísraels enn frekar.

„Er það enn ein sönnun þess að Ísland væri betur komið utan hernaðarbandalaga,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá krefjast Samtök hernaðarandstæðinga þess að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að sett verði alþjóðlegt vopnasölubann á Ísrael.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert