Fullt út úr dyrum í Iðnó

Eva Hauksdóttir, „Grímur“, Stefán Eiríksson, Geir Jón Þórisson og Katrín …
Eva Hauksdóttir, „Grímur“, Stefán Eiríksson, Geir Jón Þórisson og Katrín Oddsdóttir. Morgunblaðið/Júlíus

Fullt er út úr dyrum á borgarafundi sem hófst klukkan átta í Iðnó. Umræðuefni fundarins eru mótmæli, aðferðafræði mótmæla og borgaraleg óhlýðni.  

Frummælendur á fundinum eru Hörður Torfason tónlistarmaður, Eva Hauksdóttir aðgerðarsinni, grímuklæddur einstaklingur og Stefán Eiríksson lögreglustjóri. Auk þeirra munu Katrín Oddsdóttir laganemi, Sigurlaug Ragnarsdóttir fyrir hönd Nýrra tíma og Þórhallur Heimisson prestur taka þátt í pallborðsumræðum.

Hörður Torfason, fyrsti frummælandi fundarins, ávarpaði áheyrendur stuttlega og sagðist hafa haft það nánast að atvinnu að mótmæla „Það er umhyggja fyrir samfélagi sínu að standa upp, þrátt fyrir að maður skjálfi af hræðslu, fyrir það að maður lætur ekki troða á sér,“ sagði Hörður 

Næst tók Eva Hauksdóttir aðgerðasinni til máls og ræddi um hvatirnar að baki mótmælaaðgerðum síðustu vikna og mánaða. Hún sagði gripið væri til beinna aðgerða í mótmælum um allan heim og sumir hefðu gert það án þess að gera sér grein fyrir því, t.d. með því að fara í verkfall. Tilgangur borgaralegrar óhlýðni væri leið almennings sem ekki hefði vald til að andmæla yfirvaldi og nefndi sem dæmi lög sem „segja að það sé ekki hægt að koma ríkisstjórn frá nema hún samþykki það. Þetta eru ólög, og ef það er glæpur að berjast gegn slíkum ólögum, þá er ég bara stoltur glæpamaður,“ sagði Eva og uppskar dúndrandi lófaklapp viðstaddra.

Grímuklæddi einstaklingurinn, sem ekki kemur fram undir nafni en titlar sig anarkista, sagðist ekki vera að mótmæla kreppunni sem slíkri heldur spilltu samfélagi sem koma þyrfti frá til að byggja upp nýtt samfélag byggt á trausti. Hann sagðist bera virðingu fyrir lögreglunni sem einstaklingum en ekki sem stofnun. „Það er út í hött að halda því fram að við séum hvort öðru svo hættuleg að það þurfi að taka sum okkar og vopnvæða til að halda okkur hinum í skefjum.“

Stefán Eiríksson lögreglustjóri tók síðastur til máls og skýrði frá hlutverki lögreglu við mótmæli. Hann sagði að lögreglu bæri að tryggja öryggi almennings og tryggja rétt þeirra sem vilja mótmæla og koma skoðunum sína á framfæri jafnvel þegar yfirvöld virðist ekki hafa áhuga á að hlusta.  Hann sagðist telja að lögreglan hefði gert það eftir bestu getu á mótmælum hingað til í samvinnu við þá sem að mótmælafundum standa og verið heldur væg í aðgerðum heldur en hitt, m.a. með því að standa til hliðar og reyna ekki að grípa inn í þegar Alþingishúsið er grýtt eggjum.  Þegar kæmi að frekari skemmdarverkum væri það hinsvegar hlutverk lögreglu að grípa inn í.

„Þeir sem kenna sig við borgaralega óhlýðni eða aðgerðarsinna eru fullkomlega meðvitaðir um það að þeir eru að brjóta lög og þar með fullkomlega meðvitaðir um að það er hlutverk lögreglu að grípa inn í,“ sagði Stefán. Nokkuð var púað í salnum yfir ræðu Stefáns en hann benti á að í kvöld væri tækifæri fyrir lögreglu og almenning til að ræða málin og lögreglan hygðist svara öllum spurningum af heilindum.

Fullt er út úr dyrum.
Fullt er út úr dyrum. Morgunblaðið/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert