Fljótsdalsstöð leysti út þegar nokkrar mínútur voru liðnar af nýárinu. Svonefnd hlaupsekúnda truflaði raforkuvinnslu í Fljótsdalsstöð. Útleysingin olli straumleysi í á aðra klukkustund hjá Fjarðaáli. Einnig varð á sama tíma straumleysi í dreifikerfi Rarik á Djúpavogi, en ekki er enn ljóst hvernig sú truflun tengist trufluninni í Fljótsdal. Þetta kemur fram á vef Landsvirkjunar.
„Útleysingin átti sér stað vegna truflunar í stjórntölvukerfi véla stöðvarinnar. Orsökin er rakin til viðbótar sekúndu sem skotið var aftan við liðið ár, svokallaðrar hlaupsekúndu. Stjórnkerfi vélanna hefði ekki átt að truflast vegna þessa, þannig að um er að ræða mistök í forritun kerfisins. Framleiðandi stjórnkerfisins hefur þegar viðurkennt þetta og vinnur nú í að lagfæra hugbúnaðinn.
Hlaupsekúndum er skotið inn öðru hverju til þess að leiðrétta klukkur til samræmis við breytingar á snúningshraða jarðar. Síðasta breyting (fyrir utan þessa) var gerð um áramótin 2005 / 2006. Innbyggð klukka stjórnkerfis Fljótsdalsstöðvar er leiðrétt sjálfvirkt með tímamerki frá GPS gervitungli.
Nú um áramótin sendi GPS kerfið semsagt stjórnkerfi stöðvarinnar leiðréttingu um þessa hlaupsekúndu með þeirri afleiðingu að alvarleg truflun varð í kerfinu vegna gallans í hugbúnaðinum.
Landsvirkjun þykir miður að þessi galli hafi leitt til straumleysis og mun tryggja það að hann verði lagfærður," að því er segir á vef Landsvirkjunar.