Læknarnir lagstir í pest

Nær allir læknar, þrír skurðlæknar og einn lyflæknir á Sjúkrahúsi Suðurnesja eru veikir af Noro iðrasýkingu. Þá eru sjö sjúklingar veikir af sýkingunni og nokkrir hjúkrunarfræðingar. Sjúkrahúsið er því að mestu lokað og í sóttkví.

Lyf- og handlækningadeildin sem er aðaldeild sjúkrahússins verður lokuð í þrjá sólarhringa meðan leitast verður við að ráða niðurlögum sýkingarinnar.

Strangar reglur gilda um umgengni á sjúkrahúsinu en sýkingin er bráðsmitandi. Hún er þó ekki talin hættuleg heilbrigðu fólki.  Vonast er til að læknar og annað starfsfólk geti snúið aftur innan nokkurra daga en þangað til er starfsemin half lömuð.  

Sigurður Þór Sigurðarson, framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsi Suðurnesja, segir að sýkingin gangi venjulega yfir á einum til tveimur dögum hjá heilbrigðum einstaklingum og hafi ekki frekari eftirköst.

Heilsugæslan í Keflavík hefur ekki orðið jafn illa fyrir barðinu á sýkingunni en þar liggja þó tveir læknar í pestinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert