Lífeyrissjóðir fjármagni framkvæmdir?

Innan verkalýðshreyfingarinnar er mikill áhugi á að ráðist verði sem fyrst í mannaflsfrekar framkvæmdir til að vinna gegn atvinnuleysi. Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, vill að hafist verði handa um byggingu nýs háskólasjúkrahúss og segir í pistli á vefsíðu SGS að ef skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins komi í veg fyrir aukna skuldsetningu ríkissjóðs „má hugsa sér samstillt átak lífeyrissjóða og annarra fjárfesta við fjármögnun verkefnisins meðan kreppuástandið varir.“

Ljóst er orðið að lífeyrissjóðir koma ekki að endurreisn atvinnulífsins fyrr en tekist hefur að ljúka uppgjöri sjóðanna við skilanefndir bankanna. Stofnun Endurreisnarsjóðs sem ríkisstjórnin boðaði í byrjun desember er í biðstöðu vegna þessa. „Við sögðum strax í upphafi að aðkoma lífeyrissjóðanna byggðist á því að okkur tækist að ná ásættanlegri niðurstöðu í viðræðum við skilanefndir bankanna um uppgjör á framvirkum gjaldmiðlasamningum,“ segir Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða. Viðræður við bankana hafa nú staðið í tæpa þrjá mánuði án þess að sjái fyrir endann á þeim. ,,Það ber töluvert mikið á milli,“ segir Arnar. ,,Lífeyrissjóðirnir eru mjög opnir fyrir því að koma að endurreisn atvinnulífsins. Það hefur ekkert breyst en við getum ekki búið við þessa óvissu.“

Alþingi samþykkti fyrir jól lagabreytingu sem rýmkar heimildir lífeyrissjóða til að taka þátt í fjárfestingum í atvinnulífinu. Arnar segir að ef leysist úr viðræðunum við bankana megi gera ráð fyrir að þeir sem að Endurreisnarsjóðnum koma fjárfesti í starfandi fyrirtækjum sem voru álitlegur kostur fyrir bankahrunið og ættu undir venjulegum kringumstæðum góða rekstrarmöguleika. Fjármögnun mannaflsfrekra framkvæmda yrði væntanlega með útgáfu skuldabréfa sem lífeyrissjóðir og aðrir gætu keypt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert