„Húsin að Laugarvegi 4 og 6 munu standa óhreyfð næstu ár en aðeins 20 milljónir af þeim 400 milljónum sem áætlað er að endurgerðin kosti eru á fjárhagsáætlun ársins 2009. Þessar fjárhæðir bætast við kaupverðið, 580 milljónir," segir í tilkynningu frá Degi B. Eggertssyni, borgarfulltrúa Samfylkingar.
Segir Dagur þessa fjármuni óneitanleg geta nýst í annað í þeirri stöðu efnahagsmála sem nú er. „Algerlega óljóst er hvenær lagt verður fé til endurgerðar húsanna. Sjálfstæðisflokkurinn mun því áfram bjóða borgarbúum upp á þennan minnisvarða um óábyrga misnotkun almannafjár og meirihlutakaup Sjálfstæðisflokksins, á kostnað borgarbúa, í upphafi síðasta árs," segir í tilkynningunni.
Lögðu fulltrúar Samfylkingar fram fyrirspurn um kostnað við húsin að Laugarvegi 4 og 6 í borgarráði í dag. Var spurt hver væri reiknaður fjármagnskostnaður vegna kaupverðs húsanna, hver fjármagnskostnaðurinn verði standi húsin ónýtt í 1 – 5 ár, hvernig þeim 20 milljónum sem áætlaðar eru til endurgerðarinnar verði varið og hvort kostnaður við endurgerð húsanna hafi verið endurmetinn eftir breytingu á deiliskipulagi.