„Hvorki heyrist hósti né stuna frá þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna, ekki einu sinni Samfylkingunni þótt einkavæðingarráðherra Sjálfstæðisflokksins, blóðugur upp að öxlum í niðurskurði, splundri skipan heilbrigðismála í landinu. Ég tek undir með þeim fjölmörgu sem krefjast þess að Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra verði látinn víkja þegar í stað," segir Jón Bjarnason þingmaður VG á heimasíðu sinni í dag.
Jón segir Guðlaug Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherrabrjóta lög og sýna starfsfólki heilbrigðisstofnana, sveitarstjórnarfólki og íbúum heilla héraða dæmafáa lítilsvirðingu með fyrirvaralausum og einhliða breytingum á skipulagi heilbrigðismála og niðurskurði. Heilsugæsla og þjónusta sjúkrahúsa sé í uppnámi um allt land.
Jón segir landsmenn ekki munu fórna heilbrigðisstofnunum sínum baráttulaust. Skagfirðingar séu gott dæmi um það. Þá segir Jón það sýna veruleikafirringu heilbrigðisráðherra að setja heilbrigðisstofnunina á Patreksfirði undir Ísafjörð í mörg hundruð kílómetra fjarlægð.
Þá sé forkastanlegt að setja allar heilbrigðisstofnanir frá Hólmavík um Dali, Snæfellsnes, Hvammstanga og Borgarnes undir stjórn sjúkrahússins á Akranesi án nokkurs samráðs við heimafólk eða starfsmenn. Þá segir Jón Bjarnason nöturlegt að heyra forstjóra Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri gleðjast yfir því að loka eigi sjálfstæðum sjúkrahúsum á Sauðárkróki og Blönduósi til að létta á hallanum og ná verkefnum frá þessum stöðum til Akureyrar.